Stjörnuleikurinn í sögubækurnar

Besti maður vallarins, Anthony Davis, treður einu sinni sem oftar …
Besti maður vallarins, Anthony Davis, treður einu sinni sem oftar í leiknum í nótt. AFP

Stjörnuleikur NBA-deildarinnar í körfuknattleik fór fram í nótt, þar sem mættust úrvalslið austur- og vesturdeildanna. Það fór svo að vestrið hafði betur í svakalegum leik, 192:182, en aldrei hafa verið skoruð fleiri stig í þessum árlega stjörnuleik.

Anthony Davis, leikmaður New Orleans Pelicans í vesturdeildinni, var valinn besti maður leiksins, MVP, en hann skoraði 52 stig og tók 10 fráköst og hefur einn og sami leikmaðurinn aldrei skorað fleiri í stjörnuleiknum. Hann bætti í leiðinni met Wilt Chamberlain sem staðið hafði frá árinu 1962, hvorki meira né minna, en Chamberlain skoraði 42 stig í stjörnuleiknum það árið.

Það voru fleiri í stuði í vesturliðinu, því Kevin Durant henti í þrefalda tvennu með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Liðsfélagi hans hjá Golden State Warriors, Stephen Curry, skoraði einnig 21 stig og þá skoraði Russell Westbrook, sem hefur farið á kostum í vetur, 41 stig af bekknum.

Austurliðið var yfir eftir fyrsta leikhluta, 53:48, en staðan í hálfleik var 97:92 fyrir vesturliðið. Giannis Antetokounmpo, leikmaður Milwaukee Bucks, var stigahæstur austurliðsins með 30 stig en hann verður í eldlínunni gegn Íslendingum með Grikkjum í lokakeppni EM í september.

Stjörnuleikurinn er yfirleitt mikið fyrir augað og því til undirstrikunar voru alls 75 troðslur teknar í leiknum, en meðaltalið í venjulegum leik í deildinni eru 19 troðslur. Maður leiksins, Anthony Davis, átti sjálfur 18 troðslur í nótt og átti sjálfur fleiri troðslur en öll lið hafa átt í leik á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert