Vorum ráðalausir og staðir

Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við byrjuðum ágætlega, en við fylgdum því ekki eftir, við vorum bara of ráðalausir og staðir, sýndum ekkert áræði, og þegar spilað er gegn sterku liði gengur slík spilamennska ekki,“ sagði Stjörnumaðurinn Hlynur Bæringsson við mbl.is eftir tapið gegn Tindastóli í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

„Betra liðið vann og við áttum í raun ekkert meira inni til að geta náð stigunum hér í kvöld. Auðvitað er þetta hundfúlt, við komum hingað til þess að ná í stig, en það gekk bara ekki,“ sagði Hlynur.

„Byrjunin var ágæt við sóttum vel að körfunni og fengum stig úr vítaskotum, en svo þegar Tindastólsmenn gerðu áhlaup á okkur sýndum við ekkert hugrekki, bökkuðum og létum þeim eftir að komast í allt of auðveld skot,“ sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnumanna.

„Og það dugar ekki að fara að taka einhverja dauðakippi í lokaleikhlutanum þegar búið er að spila sigri frá sér, enda fór það svo að við náðum ekki að sýna neitt af því sem við vildum og hefðum getað gert,“ sagði Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert