„Ég hef bara engar áhyggjur“

Fanney Lind Thomas í mikilli baráttu gegn Stjörnunni í kvöld.
Fanney Lind Thomas í mikilli baráttu gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Golli

Fanney Lind Thomas, leikmaður Skallagríms, var skiljanlega sátt eftir fimm stiga sigur á Stjörnunni, 84:79, í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í Garðabænum í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur Skallagríms eftir þrjú töp í röð; tvö í deildinni og í bikarúrslitunum. Skallagrímur var undir lengi vel í leiknum en kom vel til baka. Fanney segir sérstaklega gott að innbyrða fyrsta sigurinn í langan tíma og liðið er enn vel með í toppbaráttunni.

„Já, mjög og mjög gott að koma til baka eftir að þær höfðu verið yfir með einhverjum tíu stigum. Það sýnir mikinn karakter. Þetta verður bullandi barátta um fyrsta, annað og þriðja sætið og svo þær [Stjarnan] í bullandi baráttu að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Fanney Lind við mbl.is.

Skallagrímur hafði tapað síðustu tveimur deildarleikjum, sem báðir voru á heimavelli, en þetta var hins vegar áttundi sigur liðsins á útivelli þar sem þær virðast óstöðvandi.

„Já, en við verðum að fara að verja heimavöllinn líka. Ég hef ekki miklar áhyggjur, við eigum mikið inni og eigum eftir að sýna það,“ sagði Fanney.

Liðið missti dampinn nokkrum sinnum í leiknum sem virtist nálægt því að koma Borgnesingum í koll. Er það eitthvað sem þarf sérstaklega að skoða?

„Nei, ég hef bara engar áhyggjur til að vera hreinskilin. Við vitum hvað við þurfum að gera til þess að vinna leiki, og við þurfum bara að gera það,“ sagði Fanney Lind Thomas við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert