Woods tryggði Hamri sigurinn

Christopher Woods.
Christopher Woods. Ljósmynd/Hamar

Hamar hafði betur gegn Val, 98:96, í framlengdum leik í 1. deild karla í körfuknattleik sem fór í Valshöllinni í kvöld.

Það var Christopher Woods sem tryggði Hamarsmönnum sigurinn þegar hann setti niður tvö vítaskot á lokasekúndum leiksins en Woods skoraði 35 stig í leiknum og Erlendur Ágúst Stefánsson skoraði 25. Hjá Valsmönnum var Austin Magnus Bracey stigahæstur með 24 stig og Urald King skoraði 20.

ÍA hafði betur gegn Ármanni á útivelli, 97:77, og Höttur lagði Vestra á heimavelli, 78:54.

Höttur trónir á toppi deildarinnar með 38 stig, Fjölnir hefur 32 og Valur er í þriðja sætinu með 30. Hamar er í fimmta sætinu með 20 stig.

Tap Valsmanna þýðir að Hattarmönnum nægir einn sigur enn til að tryggja sér úrvalsdeildarsæti og austanliðið leikur næst gegn botnliði Ármanns í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert