Toppliðið þurfti framlengingu

Rebekka Rán Karlsdóttir úr Snæfelli með boltann en Mia Loyd …
Rebekka Rán Karlsdóttir úr Snæfelli með boltann en Mia Loyd og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir úr Val sækja að henni. mbl.is/Árni Sæberg

Topplið Snæfells vann nauman 77:70 sigur á Valskonum í Dominos-deild kvenna í körfubolta í Valshöllinni í kvöld, í framlengdum spennuleik.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 21:21 en Valskonur náðu forystunni í öðrum leikhluta og með skynsömum leik, héldu þær muninum í 4-10 stigum allt fram að fjórða leikhluta. Það gerðu þær þrátt fyrir að Guðbjörg Sverrisdóttir hafi farið meidd af velli í fyrri hálfleik.

Í upphafi fjórða leikhluta var staðan 56:52 fyrir Val. Mia Loyd, bandarískur leikmaður Vals fékk þá sína fimmtu villu og með því lauk þátttöku hennar í leiknum. Hún var stigahæst og með flest fráköst og reyndi því mikið á Valskonur að leika lokamínúturnar án hennar.

Snæfell komst í kjölfarið yfir í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhluta og var staðan 63:65, Snæfelli í vil, þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Valur komst hins vegar í 66:65 þegar Dagbjört Samúelsdóttir skoraði af stuttu færi og bætti við stigi á vítalínunni. Berglind Gunnarsdóttir fékk tvö vítaskot í næstu sókn en hún nýtti aðeins annað þeirra og jafnaði í 66:66. Bæði lið fengu tækifæri til að tryggja sér sigurinn undir lokin en mistókst og því var framlengt.

Í framlenginunni reyndist Snæfell sterkari aðilinn og var Aaryn Ellenberg sérstaklega sterk þegar mest á reyndi.

Snæfell heldur því efsta sætinu með 38 stig en Keflavík og Skallagrímur sem bæði unnu í kvöld eru með 36 stig. Valur er áfram í fimmta sæti með 20 stig og á enn von um að ná Stjörnunni og komast í undanúrslitin en Stjarnan er með 24 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu:

Valur 70:77 Snæfell opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert