Reyndum að njóta þess að spila körfubolta

„Við gáfum allt í þetta og reyndum að njóta þess að spila körfubolta, bæði fyrir okkur og stuðningsmennina,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, eftir að liðið vann Keflavík í þriðja einvígisleik liðanna í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í kvöld. Staðan í einvíginu er 2:1 fyrir Keflavík.

„Mér finnst við hafa spilað mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum en það voru litlu hlutirnir sem féllu ekki með okkur og í öðrum leiknum var of mikil pressa á okkur,“ sagði Martin við mbl.is.

„Við þurfum að bæta okkur með hverri æfingu og hverjum leik. Ég á eftir að greina vel myndbönd af því sem við gerðum vel og hvað við þurfum að bæta, en þetta er meira en bara skipulag. Þetta snýst um baráttu, orku og að halda út allt til enda,“ sagði Martin.

Ætlum að gera allt til að stoppa þá

Björgvin Hafþór Ríkharðsson var stigahæstur hjá Tindastóli með 22 stig í kvöld. En hvað var það sem skóp sigurinn?

„Vörnin var að smella, það var nr 1, 2 og 3, og skotin voru að detta. Þessi þriggja stiga skot aðallega sem við vorum ekki að hitta í hinum leikjunum. Svo er það líka stór partur að stuðningsmennirnir voru frábærir. Þeir hafa reyndar líka verið frábærir í hinum leikjunum og ég skora á sem flesta að mæta í Keflavík á föstudaginn og styðja við bakið á okkur,“ sagði Björgvin við mbl.is.

Hann er brattur fyrir leikinn í Keflavík á föstudagskvöldið, sem Tindastóll þarf að vinna ef Skagfirðingar ætla ekki í sumarfrí.

„Við förum í þann leik eins og við fórum í þennan leik, algjör úrslitaleikur og tímabilið upp á. Þetta verður bara járn í járn þar, ég býst nú við að þeir verði brjálaðir og vilja náttúrulega klára þetta heima. Við ætlum að gera allt sem við getum til að stoppa þá og fara í oddaleik hér heima,“ sagði Björgvin Hafþór Ríkharðsson við mbl.is.

Björgvin Hafþór Ríkharðsson.
Björgvin Hafþór Ríkharðsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert