Vorum algjörlega óttalausir

Friðrik Ingi Rúnarsson
Friðrik Ingi Rúnarsson Eggert Jóhannesson

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur var að sjálfsögðu ánægður með 83:73 sigur á Tindastól í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Keflavík tryggði sér einvígi gegn KR í undanúrslitum deildarinnar með sigrinum, en Tindastóll er kominn í sumarfrí.

Þjálfarinn hrósaði varnarleik sinna manna sérstaklega í leikslok. 

„Krafturinn í vörninni hjá okkur í byrjun var mikið meiri en í síðasta leik, það var markmiðið hjá okkur að taka leikinn föstum tökum og reyna að keyra á þá. Við fengum auðveldar körfur í upphafi leiks og við setjum þá í erfiða stöðu."

„Þeir ná að jafna, en við vorum alltaf í bílstjórasætinu. Stærsti munurinn frá síðasta leik er varnarleikurinn. Regee tók svo við af Herði og kom með mikilvægar körfur."

„Við vorum mjög ákveðnir, viljinn var mikill hjá mínum mönnum í dag. Við vorum algjörlega óttalausir, þó við berum mikla virðingu fyrir Tindastól, enda frábært körfuboltalið, svo við erum mjög ánægðir með að klára þetta hér."

„Þetta eru allt hörkuleikir nema leikur þrjú, þar sem þeir rasskella okkur. Við þurftum að hafa okkur alla við til að slá þá út, enda enduðum við í 6. sæti og þeir í 3. sæti, en við fundum lausn og því erum við komnir áfram."

Magnús Már Traustason átti virkilega góðan leik og skoraði 27 stig. Friðrik var að sjálfsögðu ánægður með hans framlag. 

„Hann var frábær í fyrsta leik á Króknum og hann var frábær í kvöld. Hann hefur verið mjög solid í vetur, en hann var mjög áberandi í fyrsta leik og svo í leiknum í dag. Við erum með leikmenn héðan og þaðan og þessi hugsun að mismunandi menn geta stigið upp, þá eru allir tilbúnir að reyna að finna þann mann. Þannig verða góð lið enn betri."

Keflavík mætir KR í undanúrslitum, eitthvað sem Friðrik þekkir býsna vel. 

„Við erum að klára þetta núna, ég þekki KR-inga mjög vel, enda búinn að spila við þá í undanúrslitum síðustu tvö ár. Ég er að fara í kunnulegt verkefni á kunnulegum slóðum. Við erum með hörkulið þegar við spilum saman í vörn og sókn og við nálgumst þetta verkefni af æðruleysi og grimmd. Við ætlum okkur að gera allt sem við getum til að hafa betur gegn KR."

„Stuðningurinn var frábær og ég á ekki von á að það breytist. Þessir stuðningsmenn eru búnir að vera frábærir, sérstaklega í úrslitakeppninni. Það gefur okkur aukakraft. Við mætum svellkaldir gegn KR," sagði Friðrik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert