Gjörsamlega stál í stál

Rut Herner Konráðsdóttir (til vinstri) lék áður með Val.
Rut Herner Konráðsdóttir (til vinstri) lék áður með Val. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rut Herner Konráðsdóttir átti virkilega góðan leik í 70:61 sigri Þórs frá Akureyri á Breiðabliki í Smáranum í kvöld. Leikurinn var annar leikur liðanna í úrslitaeinvígi um sæti í úrvalsdeildinni í körfubolta á næstu leiktíð. Með sigrinum tryggði Þór sér oddaleik, sem fram fer á Akureyri á föstudaginn.

Hún skoraði 21 stig og var stigahæst Þórsara í leiknum, sem var hnífjafn, fram að fjórða leikhluta, sem Þór spilaði betur. 

„Þetta var gjörsamlega stál í stál, við vissum að þetta yrði hnífjafn leikur. Auðvitað vildu þær klára þetta á heimavelli á meðan við vorum ekki tilbúnar að fara í sumarfrí. Þetta var stál í stál allan rímann og réðst ekki fyrr en á síðustu mínútunum.“

Fyrri leikur liðanna endaði með 43:40 sigri Breiðabliks. 

„Liðin hefðu ekki getað verið verri í sókninni í síðasta leik. Þetta var aðeins fallegri körfubolti núna, það var augljóst að spennustigið var hátt í fyrsta leiknum, við réðum betur við það núna. Þetta var frábær leikur hjá báðum liðum, þetta hefði getað farið á hvorn vegin sem er.“

Hvað gekk betur hjá Þór í lokin? 

„Við vorum að ná að hlaupa kerfin okkar, þær fóru að bakka frá okkur og við nýttum okkur það. Við gerðum það sem við höfðum verið að æfa, við hlupum kerfin okkar og nýttum okkur stóru mennina okkar. Það skilaði þessu.“

„Við erum ákveðnar að klára þetta, en við vitum að það verður annar svona leikur á föstudaginn. Það er plús að vera á heimavelli, en þetta verður drulluerfiður leikur,“ sagði hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert