Grófum of djúpa holu

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði við mbl.is eftir ósigurinn gegn Snæfelli í fyrsta undanúrslitaleik Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Stykkishólmi í kvöld að byrjunin á leiknum hefði ekki verið nægilega góð.

„Við byrjuðum ekki nægilega vel og vorum strax tíu stigum undir í fyrsta leikhluta,“ sagði Pétur og sagði sitt lið ekki hafa farið nægilega vel eftir leikplaninu, skort einbeitingu og misst af sóknarfráköstum.

Pétur sagði sitt lið hafa komið með ágætt áhlaup en þetta hefði verið erfitt. Snæfell væri með góða leikmenn, Ellenberg hefði verið komin með ein fjörutíu stig eftir þrjá leikhluta og það hefði verið mjög erfitt að eiga við hana. Sitt lið hefði leikið vel í fjórða leikhluta en þá hefði það þegar veirð búið að grafa sér of djúpa holu gegn góðu liði á erfiðum útivelli. 

Pétur kvaðst þess fullviss að sitt lið gæti knúið fram sigur í næstu viðureign liðanna sem fer fram í Garðabæ á laugardaginn.

Viðtalið í heild má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert