Umgjörðin ekki svona á mörgum kvennaleikjum

Hildur Sigurðardóttir þjálfar nú kvennalið Breiðabliks.
Hildur Sigurðardóttir þjálfar nú kvennalið Breiðabliks. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Hildur Sigurðardóttir, þjálfari Breiðabliks var vissulega ósátt eftir 70:61 tap gegn Þór frá Akureyri í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild kvenna í körfubolta, en leikurinn fór fram í Smáranum. 

Leikurinn var gríðarlega jafn, fram að 4. leikhluta þar sem Þórsarar voru sterkari og mætast liðin í oddaleik á Akureyri á föstudag. 

„Þórsararnir eru með þrjá reynslumikla leikmenn, sem reyndust okkur erfiðir í lokin. Mínar stelpur misstu dampinn og við vorum að gefa þeim aðeins of frí skot. Við vorum ekki nógu nálægt mönnunum okkar í dag. Þetta var allt öðruvísi leikur en fyrir norðan og við þurfum að bæta vörnina okkar fyrir oddaleikinn.“ 

Fyrri leikur liðanna endaði með 43:40 sigri Breiðabliks, en meira var skorað í leiknum í dag, sem var skemmtilegri. 

„Það er ekki eðlilegt að vinna körfuboltaleik með 43 stigum, það var full mikið stress í báðum liðum þá. Í dag voru leikmenn að setja niður skotin sín, þá fá leikmenn sjálfstraust og vita hvað þeir geta. Þórsliðið komst langt á því í dag.“

Hún segir möguleika síns liðs í oddaleiknum vera nokkuð góða.

„Það eru góðir möguleikar, við unnum þær í síðasta leik fyrir norðan. Auðvitað ætla bæði lið sér sigur, það er mikið í húfi. Sætið í úrvalsdeild er undir og það er metnaður í Breiðabliki til að vera með lið í efstu deild. Umgjörðin er örugglega ekki svona flott á mörgum kvennaleikjum. Við erum tilbúin að fara í efstu deild og við ætlum að gera allt sem við getum til að komast þangað.“

„Þetta eru jöfn lið, það er jafnt á mjög mörgum tölfræðiþáttum, svo það verður hart barist fyrir norðan,“ sagði Hildur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert