KR náði forystu með öruggum sigri

Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, skýtur að körfu Keflavíkur í …
Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, skýtur að körfu Keflavíkur í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR hafði betur, 90:71, þegar liðið mætti Keflavík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld. KR náði þar af leiðandi 1:0-forystu í einvígi liðanna.

Það var jafnræði með liðunum í upphafi leiksins og leikurinn einkenndist af miklum hraða og harðri baráttu. KR hafði þó forystu lungann úr leiknum og um miðbik þriðja leikhluta skildu svo leiðir milli liðanna. KR-ingar nýttu vel þá breidd sem liðið hefur yfir að ráða og lykilleikmenn Keflavíkur virkuðu þreyttur þegar líða tók á leikinn.

KR herti klóna í varnarleik sínum í seinni hálfleik og keyrðu í bakið á Keflvíkingum í kjölfarið. KR-ingar skoruðu fjölmargar auðvaldar körfur í kjölfar þess að liðið vann boltann með öflugum varnarleik. Leikmenn KR skoruðu svo þriggja stiga körfur á lykilaugnablikum í leiknum og náðu upp góðu forskoti undir lok þriðja leikhluta sem þeir létu ekki af hendi.

KR-ingar fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum í sóknarleiknum í kvöld, en sex leikmenn liðsins skoruðu meira en 10 stig og níu leikmenn alls komust á blað í leiknum. Sóknarleikur Keflavíkur var hins vegar einsleitari þar sem Amin Stevens og Reggie Dupree drógu vagninn. 

Darri Hilmarsson var stigahæsti leikmaður KR með 18 stig. Brynjar Þór Björnsson kom næstur hjá KR með 15 stig, en hann skoraði öll stigin með þriggja stiga körfum. Amin Stevens var hins vegar atkvæðamestur í liði gestanna úr Keflavík með 25 stig.

Næsti leikur liðanna verður í TM-höllinni Keflavík mánudaginn 3. apríl klukkan 19.15.

KR 90:71 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert