Snæfell vann og heldur lífi í einvíginu

Bryndís Guðmundsdóttir, Snæfelli, og Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Keflavík, eigast við …
Bryndís Guðmundsdóttir, Snæfelli, og Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Keflavík, eigast við í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Snæfell á enn möguleika á að verja Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik eftir lífsnauðsynlegan sigur á Keflavík, 68:60, í Stykkishólmi í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu í kvöld. Keflavík hefði með sigri í kvöld tryggt sér titilinn og bundið enda á þriggja ára sigurgöngu Snæfells, en staðan í rimmunni er nú 2:1 fyrir Keflavík.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur í fyrsta leikhluta og ljóst að spennan var mikil fyrir framan fjölmarga áhorfendur beggja liða. 12 af fyrstu 14 stigunum komu fyrir utan þriggja stiga línuna og þó Keflavík hafi haft frumkvæðið framan af mátti ekki á milli sjá að loknum fyrsta hluta. Staðan 17:17.

Í öðrum leikhluta var þó annað uppi á teningnum. Keflavík fór að safna villum frekar en stigum og skotnýting liðsins var afar slök. Snæfell skoraði 11 stig í röð seint í leikhlutanum og náði mest 13 stiga forystu. Keflavík skoraði aðeins 10 stig í öðrum leikhluta og Snæfell hafði þægilegt forskot í hálfleik, 40:27.

Snæfell skoraði sjö stig í þriðja leikhluta

Dæmið snerist hins vegar algjörlega við í þriðja leikhluta. Snæfell skoraði ekki stig fyrr en eftir réttar fimm mínútur og þá hafði Keflavík minnkað muninn niður í sex stig. Skotnýtingin hafði verið léleg hjá Keflavík í öðrum hluta en var þarna enn verri hjá Snæfelli og liðið skoraði aðeins sjö stig í öllum leikhlutanum. Leikurinn var því hnífjafn að nýju fyrir þann fjórða og síðasta, 47:47.

Fjórði leikhluti var gríðarlega jafn og spennandi eins og við var að búast. Liðin skiptust á að hafa undirtökin en þegar líða tók á leikhlutann náði Snæfell yfirhöndinni. Liðið skoraði tíu stig í röð þegar skammt  var eftir, tryggði sér að lokum sigurinn 68:60 og kom í veg fyrir að Keflavík yrði meistari í kvöld.

Staðan í einvíginu er því 2:1 fyrir Keflavík, en liðin mætast í fjórða sinn suður með sjó á miðvikudagskvöldið klukkan 19.15.

Aaryn Ellenberg var stigahæst hjá Snæfelli í kvöld með 33 stig og 11 fráköst en hjá Keflavík var Ariana Moorer með 17 stig og 20 fráköst.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu frá Stykkishólmi hér á mbl.is sem sjá neðst í fréttinni. Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun og viðtöl koma svo á vefinn hér síðar í kvöld.

Gangur leiksins: 3:8, 8:12, 12:16, 17:17, 22:21, 26:23, 33:25, 40:27, 40:34, 42:34, 44:40, 47:47, 52:49, 56:54, 62:56, 68:60.

Snæfell: Aaryn Ellenberg 33/11 fráköst/7 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 12/4 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 9/4 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 9/9 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 5.

Fráköst: 20 í vörn, 8 í sókn.

Keflavík: Ariana Moorer 17/20 fráköst/5 stolnir, Thelma Dís Ágústsdóttir 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9/4 fráköst, Erna Hákonardóttir 6, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 6/9 fráköst/3 varin skot, Birna Valgerður Benónýsdóttir 6, Þóranna Kika Hodge-Carr 2.

Fráköst: 28 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson.

Snæfell 68:60 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert