Engin verðlaunaafhending í vesturbænum

Lewis Clinch Jr. sækir að körfu KR í kvöld en …
Lewis Clinch Jr. sækir að körfu KR í kvöld en til varnar er Pavel Ermolinskij. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrslitarimma KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla í körfuknattleik heldur áfram eftir 91:86 sigur Grindavíkur í þriðja úrslitaleiknum í DHL-höllinni í Reykjavík í kvöld. Staðan í rimmunni er þá 2:1 fyrir KR en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. 

KR vann tvo fyrstu leikina og með sigri í kvöld hefði liðið tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð. Svo fór þó ekki. Íslandsmeistararnir 2012 og 2013 náðu í annan heimaleik í Grindavík þar sem þeir geta jafnað metin. 

Ekki er hægt að segja annað en að Grindvíkingar hafi átt skilið að vinna í kvöld því þeir voru með forystu svo gott sem allan leikinn. Hún varð mest nítján stig í þriðja leikhluta en á löngum köflum munaði þó litlu á liðunum. 

Allir helstu leikmenn Grindavíkur komust vel inn í leikinn strax í fyrsta leikhluta og leikmenn liðsins höfðu ekki misst allt sjálftraust þrátt fyrir tvö töp og sérlega sárt tap í síðasta leik. Góð byrjun í kvöld kom þeim í rétta gírinn og Grindvíkingar misstu ekki niður forskot sitt þótt KR hafi nagað það niður í fimm stig þegar rúmar 2 mínútur voru eftir. 

Vörn KR, aðalsmerki meistaranna, var ekki eins sterk í kvöld og oft áður enda sjaldgæft að liðið fái á sig 51 stig í einum hálfleik eins og gerðist í fyrri hálfleik í kvöld þegar Grindavík var yfir 51:47. Í síðasta leikhlutanum var vörn KR betri og þá virtist sem meistararnir myndu ef til vill landa sigri eftir allt saman en svo fór þó ekki. 

Jón Arnór Stefánsson skoraði 26 stig fyrir KR þar af 15 í fyrri hálfleik en hann ætlaði sér stundum um of í seinni hálfleik þegar hann ætlaði að taka að sér að hlaupa í gegnum veggi fyrir liðið einn síns liðs. Brynjar Þór Björnsson skilaði 17 stigum og Pavel Ermolinskij 11 stigum. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti sinn þátt í ágætri rispu KR í síðasta leikhlutanum og var um tíma sá eini í KR-liðinu sem spilaði eins og Íslandsmeistari. 

Ólafur Ólafsson var stigahæstur hjá Grindavík með 25 stig. Hann var sjálfum sér líkur. Barðist eins og hann gat og þorði að taka erfið skot. Þau fóru rétta leið mörg hver í kvöld en hann er ekki alltaf skynsamur í sínum aðgerðum. Fékk til dæmis 5 villur og tvær villurnar fékk hann þar sem hann var of ágengur í frákastabaráttu þegar KR-ingar náðu frákasti. Grindvíkingar mega illa við slíku en það slapp til í kvöld og hugarfar Ólafs smitar út frá sér. Lewis Clinch skoraði 21 stig og þorði að taka af skarið í seinni hálfleik en Grindavík vann þennan leik án þess að Clinch væri í sérstöku stuði. Þar á ég við að hann var ekki heitur í skotunum. Hitti engu af sjö þriggja stiga skotum sínum. En hann hætti aldrei að reyna enda má hann það einfaldlega ekki. Dagur Kár Jónsson gerði 14 stig og sýndi flotta takta. 

KR 86:91 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert