Golden State í undanúrslit og jafnaði met

Stephen Curry fagnar ásamt liði Golden State í nótt.
Stephen Curry fagnar ásamt liði Golden State í nótt. AFP

Golden State Warriors, sem stóð uppi sem sigurvegari í vesturdeild NBA-körfuboltans í vetur, tryggði sér í nótt sæti í undanúrslitum eftir að hafa sópað Portland Trail Blazers úr leik og unnið einvígi liðanna í átta-liða úrslitunum 4:0.

Golden State vann fjórðu viðureignina í gær 128:103, og eftir að hafa skorað 45 stig í fyrsta leikhluta var snemma ljóst hvernig myndi fara. Golden State jafnaði metið í úrslitakeppninni um flest stig skoruð í fyrsta leikhluta og hafa nú alls fjögur lið afrekað þetta. Golden State er hins vegar það eina sem hefur gert það á útivelli.

Los Angeles Lakers var fyrst til þess að setja metið árið 1986 með 45 stigum í fyrsta hluta gegn Phoenix Suns. Dallas Mavericks gerði það svo gegn Lakers ári síðar, og Houston Rockets jafnaði þetta met einnig fyrir tveimur árum í viðureign sinni við einmitt Golden State.

Stephen Curry skoraði 37 stig fyrir Golden State en hjá Portland var Damian Lillard atkvæðamestur með 34 stig.

Atlanta jafnaði og Toronto tók frumkvæðið

Af öðrum úrslitum næturinnar má nefna að Atlanta Hawks jafnaði einvígi sitt við Washington Wizards með sigri 111:101 á heimavelli. Allt byrjunarliðið skilaði tveggja stafa stigatölu og skoraði Paul Millsap mest eða 19 stig. Hjá Washington var Bradley Beal stigahæstur með 32 stig, en einvígið er nú hnífjafnt 2:2.

Þá er Toronto Raptors komið í 3:2 í einvígi sínu við Milwaukee Bucks eftir heimasigur 118:93. Norman Powell fór fyrir heimamönnum með 25 stig en Grikkinn Giannis Antetokounmpo var stigahæstur hjá Milwaukee með 30 stig. Toronto getur tryggt sér sæti í undanúrslitum í fjórða leiknum á fimmtudag.

Úrslit næturinnar:

Austurdeild:
Toronto Raptors – Milwaukee Bucks 118:93 (3:2)
Atlanta Hawks – Washington Wizards 111:101 (2:2)

Vesturdeild:
Portland Trail Blazers – Golden State Warriors 103:128 (4:0)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert