„Leggjast ekkert á grúfu og grenja“

Dagur Kár Jónsson með boltann í fjórða leiknum gegn KR …
Dagur Kár Jónsson með boltann í fjórða leiknum gegn KR í gær. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Ég mælist til þess að íþróttaunnendur leggi allt annað til hliðar á sunnudaginn en oddaleikinn um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. Eftir fremur óvænta atburðarás eru Grindvíkingar búnir að knýja fram hreinan úrslitaleik um titilinn eftir tvo sigra í röð gegn ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum KR.

Góð spilamennska Grindavíkur kemur svo sem ekki á óvart eftir að liðið sló út sterkt lið Þórs Þorlákshafnar og Stjörnunnar. En það sem kemur á óvart er að lið vinni upp tveggja vinninga forskot í úrslitarimmunni en það hefur ekki gerst fyrr í karlaflokki.

Grindavík hafði betur 79:66 en liðið hafði yfir 42:33 að loknum fyrri hálfleik. Stuðningsmenn liðanna geta nú látið hugann reika aftur til hinnar frægu úrslitarimmu árið 2009 þegar þessi sömu lið mættust einnig í oddaleik í Frostaskjóli. Þá hafði KR betur eftir háspennuleik og varð því meistari. Síðan þá hefur Jón Arnór Stefánsson ekki spilað í deildinni þar til í vetur og fær hann nú endurtekið efni. Rimman núna hefur þó þróast öðruvísi en 2009 unnu KR-ingar fjórða leikinn í Grindavík og jöfnuðu.

Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðum Grindvíkinga við því að lenda 0:2 undir í úrslitum. Spennustigið virðist vera hárrétt hjá leikmönnum liðsins. Þeir eru ákafir og grimmir en njóta þess um leið að vera komnir í þessa leiki sem allir vilja spila. Annan leikinn í röð komast einnig flestir þeirra lykilmanna vel í takt við leikinn og margir leggja sitt af mörkum. Er það ekki síst mikilvægt þar sem breiddin í leikmannahópi KR á að vera meiri á hinum víðfrægu pappírum.

Nánar er fjallað um rimmu Grindavíkur og KR í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert