Clippers knúði fram oddaleik

Paul Pierce, leikmaður Los Angeles Clippers, fagnar sigri liðsins gegn …
Paul Pierce, leikmaður Los Angeles Clippers, fagnar sigri liðsins gegn Utah Jazz í nótt. AFP

Los Angeles Clippers jafnaði metin í einvígi sínu gegn Utah Jazz í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta karla með 98:93-sigri sínum í leik liðanna í nótt.

Paul Pierce var stigahæstur í liði Los Angeles Clippers með 29 stig, en Gordon Hayward var atkvæðamestur í liði Utah Jazz með 31 stig. Sigurliðið í oddaleik liðanna mætir ríkjandi meisturum deildarinnar, Golden State Warriors, í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.  

Washington Wizards og Boston Celtics tryggðu sér sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar með sigrum í leikjum sínum í nótt.

Washington Wizards fór með sigur af hólmi gegn Atlanta Hawks 115:99 og hafði betur í einvíginu 4:2. Boston Celtics lagði Chicago Bulls að velli 105:83 og fór með sigur af hólmi í einvígi liðanna 4:2.

Jordan Wall átti stórleik í liði Washington Wizards, en hann skoraði 42 stig í leiknum. Bradley Beal bætti svo við 31 stigi fyrir Washington Wizards. Paul Millsap var atkvæðamestur í liði Atlanta Hawks með 31 stig.

Avery Bradley var stigahæstur í liði Boston Celtics með 23 stig og Jimmy Butler var atkvæðamestur í liði Chicago Bulls með 23 stig.

Washington Wizards og Boston Celtics leiða saman hesta sína í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert