Mjög þakklátur að vinna titil á Íslandi

Philip Alawoya fagnar í leikslok.
Philip Alawoya fagnar í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum staðráðnir í að vinna þennan leik. Finnur talaði við okkur og við löguðum það sem fór úrskeiðis í síðustu tveim leikjum. Við fórum vel yfir það sem betur mátti fara og við spiluðum eins og við höfum verið að gera alla leiktíðina," sagði Philip Alawoya, leikmaður KR eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta með því að vinna Grindavík, 95:56.

„Þetta er klárlega einn besti leikurinn sem liðið hefur spilað síðan ég kom. Það voru margir sem spiluðu vel og við skildum allt eftir á gólfinu. Við náðum að stoppa bestu leikmennina þeirra og við náðum góðu forskoti sem gaf okkur sjálfstraust. Við nýttum okkur það rosalega vel."

Hann er mjög þakklátur að verða Íslandsmeistari. 

„Þetta er minn annar titill og í þriðja skiptið í röð sem ég fer í lokaúrslit. Ég er mjög þakklátur að vinna titil á Íslandi, það verður gaman í kvöld, ég get lofað þér því," sagði Bandaríkjamaðurinn brosandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert