Mótherji Íslands bætti sig mest í NBA-deildinni

Giannis Antetokounmpo með boltann í leik gegn Toronto Raptors.
Giannis Antetokounmpo með boltann í leik gegn Toronto Raptors. AFP

Í fyrsta sinn frá árinu 1981 var leikmaður úr liði, sem ekki náði að vinna 50 leiki á tímabilinu, valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins í NBA-deildinni í körfubolta að þessu sinni.

Russell Westbrook, leikmaður Oklahoma City Thunder, var valinn verðmætastur í nótt. Hann er aðeins annar leikmaðurinn í sögunni sem nær að skora að meðtali þrefalda tvennu á heilli leiktíð, það er að segja skora að minnsta kosti 10 stig, taka 10 fráköst og gefa 10 stoðsendingar að meðaltali. Westbrook gerði þrefalda tvennu í 42 leikjum á tímabilinu, sem er met.

Fjölda verðlauna var útdeilt á verðlaunahátíðinni og má nefna að gríski landsliðsmaðurinn Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks, sem Ísland mætir á EM í Helsinki í lok sumars, fékk verðlaun fyrir mestar framfarir. Liðsfélagi hans hjá Milwaukee, Malcolm Brogdon, var valinn nýliði ársins.

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki fékk verðlaun sem besti liðsfélagi ársins. Öll verðlaunin má sjá á heimasíðu NBA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert