Jackson hættir hjá Knicks

Phil Jackson var ráðinn forseti New York Knicks árið 2014.
Phil Jackson var ráðinn forseti New York Knicks árið 2014. AFP

Phil Jackson hættir í dag sem forseti NBA-deildarfélagsins New York Knicks.

ESPN fullyrðir þetta og segir að ákvörðunina megi rekja til þess að James Dolan, eigandi Knicks, hafi ekki verið tilbúinn að gera það sem til þurfti til að losa félagið við leikmanninn Carmelo Anthony. Jackson hafði gefið skýrt til kynna að hann teldi best að Anthony færi frá félaginu, en hann á tvö ár eftir af samningi sínum og mun á þeim tíma þéna 54 milljónir Bandaríkjadala.

Þar sem að lausn virðist ekki í sjónmáli mun sú ákvörðun hafa verið tekin að Jackson hætti. Þar að auki mun hafa verið þrýst á Dolan í vetur að láta Jackson fara, samkvæmt heimildum ESPN. Ljóst hafi verið að Jackson hefði ekki í hyggju að vera lengur en þau fimm ár sem hann samdi um þegar hann kom árið 2014.

Jackson var sigursæll sem leikmaður og þjálfari en hann vann tvo NBA-meistaratitla sem leikmaður Knicks, og 11 sem þjálfari Chicago Bulls og LA Lakers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert