Draumur að rætast ef ég fæ að vera áfram

Ægir Þór Steinarsson
Ægir Þór Steinarsson mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það er spennandi að fara að byrja undirbúninginn og keppa á móti öðrum þjóðum og ekki bara hver við annan. Það er líka gott að fá leiki svona snemma, við höfum bara æft í eina viku og það er gott að fá leiki á þessum tímapunkti til að sjá hvar við erum staddir akkúrat núna," sagði Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfubolta við mbl.is í dag. Íslenska liðið mætir Belgíu í tveimur vináttuleikjum í vikunni í undirbúningi fyrir Evrópumótið í Finnlandi í haust.

Ísland og Belgía voru saman í undanriðli mótsins og þekkjast því þau vel. Eftir leikina við Belgíu tekur svo við ferðaleg til Rússlands, Litháen og Ungverjalands. 

„Þetta verður í þriðja sumarið í röð sem við spilum á móti Belgum. Mér sýndist mannskapurinn vera öðruvísi en í fyrra, en við þekkjum þá hins vegar vel. Þeir eru miklir íþróttamenn og það er gott að fá svona sterkt lið til að koma hingað að spila æfingaleik, það eru breyttir tímar."

„Þetta verður tempó í ágúst en það er mikilvægt að fá þessa leiki á móti svona sterkum þjóðum til að undirbúa okkur fyrir Evrópumótið. Að fara til Rússlands og spila á móti sterkum þjóðum og svo til Ungverjalands og Litháen, það er geggjað."

Hann segir undirbúninginn betri núna en fyrir síðasta Evrópumót, þegar Íslands var með í fyrsta skipti.

„Þetta er öðruvísi en síðast. Við höfum farið geyst af stað og við erum vel „rútíneraðir“ í því sem við erum að gera. Við erum vanir þessum æfingum og verið erum snöggir að komast í gang. Við erum mikið betri núna en við vorum síðast.

Tryggi Snær Hlinason, Kári Jónsson og Kristinn Pálsson eru í íslenska hópnum en þeir náðu áttunda sæti á EM 20 ára og yngri í Grikklandi, fyrr í þessum mánuði. 

„Það er frábær viðbót að fá þessa drengi inn. Þeirra hugafar passar akkúrat við það sem við erum að gera. Þeir eru búnir að vera ofboðslega flottir og það bætir mannskapinn og heildina að fá þá inn."

Ægir var hluti af liði San Pablo sem komst upp úr næstefstu deild Spánar og upp í þá efstu á síðustu leiktíð. Hann er sem stendur samningslaus en hann vill ólmur spila með liðinu í efstu deild. 

„San Pablo spilar í efstu deild á Spáni næsta vetur en það þýðir ekki að ég spili með þeim næsta vetur þar sem ég er samningslaus eins er. Það eru viðræður í gangi um hvort ég haldi áfram hjá þeim eða fari eitthvað annað. Það er ekkert staðfest í þeim efnum en það væri draumur að rætast ef ég fengi tækifæri til að spila með þeim í þessari deild. Við sjáum hvað gerist, en ég vona innilega að ég verði áfram."

„Ég ætla að reyna að klára mín mál fyrir EM, svo ég geti verið rólegur á mótinu en ef það tekur það tekur lengri tíma þá verður það bara að gera það," sagði Ægir að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert