„Tel mig eiga fullt erindi á EM“

Elvar Már Friðriksson í leiknum í kvöld.
Elvar Már Friðriksson í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Elvar Már Friðriksson var duglegur að þefa uppi samherja sína í sigrinum á Belgíu í Smáranum í kvöld og gaf flestar stoðsendingar í íslenska liðinu eða sjö talsins. 

Ísland var með forystuna frá því liðið skoraði fyrstu körfuna og þar til lokaflautið heyrðist en lokatölur urðu 83:76. Um var að ræða fyrsta vináttulandsleikinn af sjö í undirbúningi liðsins fyrir lokakeppni EM. 

„Það var gaman að fá að stíga inn á gólfið aftur eftir langa fjarveru. Ég held að liðnir séu þrír eða fjórir mánuðir síðan ég spilaði síðast alvöruleik. Þegar ég kom inn á var ég aðeins ryðgaður en fann mig fljótt og fannst ég gera nokkuð vel,“ sagði Elvar þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum. 

Elvar var ekki í íslenska liðinu sem lék í lokakeppninni í Berlín fyrir tveimur árum en var í liðinu í síðustu undankeppninni þegar Ísland vann sér aftur sæti í lokakeppni EM en Ísland mun að þessu sinni leika í Helsinki. „Já, framundan er barátta um sæti í hópnum. Ég tel mig eiga fullt erindi í EM-hópinn eftir gott tímabil í Bandaríkjunum. Ég ætti að geta hjálpað liðinu helling og vona að ég fái tækifæri til að sýna það,“ sagði Elvar en ef til þess kemur þá mun hann fá frí úr háskólanum á Flórída til að keppa á EM. Sú hefur ekki alltaf verið raunin hjá íslensku íþróttafólki í bandarískum háskólum. 

„Ég er búinn að fá grænt ljós frá skólanum. Þeir vilja ekki að ég missi af slíku tækifæri ef sú staða kemur upp. Svona lagað gerist ekki oft og ég ætla mér að taka þátt í þessu verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert