Fólk á að einbeita sér að liðinu, ekki mér

Giannis Antetokounmpo í leik með milwaukee Bucks.
Giannis Antetokounmpo í leik með milwaukee Bucks. AFP

Giannis Antetokounmpo tilkynnti það um helgina að hann yrði ekki með Grikkjum á EM í körfubolta vegna meiðsla. Antetokounmpo er einn efnilegasti körfuboltamaður heims um þessar mundir og er það mikið áfall fyrir gríska liðið að hann verði ekki með á mótinu.

Í kjölfar tilkynningarinnar létu forráðamenn gríska körfuboltasambandsins reiði sína í ljós og sögðu þeir ekkert ama að Antetokounmpo og sökuðu þeir Milwaukee Bucks, liði hans í NBA-deildinni í Bandaríkjunum um að leyfa honum ekki að vera með á mótinu. Antetokounmpo talaði við gríska fjölmiðla í dag og segist hann vonsvikinn að missa af mótinu. 

„Ég er mjög vonsvikinn að vera ekki með á EM. Það er búið að segja og rita mikið um mig að undanförnu, en það er ljóst að enginn getur tjáð sig eins vel og ég um mínar eigin tilfinningar. Þess vegna vildi ég koma með tilkynningu um þetta, frekar en að láta gríska sambandið um það. Fólk á nú að einbeita sér að liðinu, en ekki mér," sagði Antetokounmpo. 

Ísland og Grikkland eru saman í riðli á EM sem fram fer í Finnlandi og þau mætast  31. ágúst næstkomandi í fyrstu umferð riðlakeppninnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert