Var Grikkjanum settur stóllinn fyrir dyrnar?

Giannis Antetokounmpo.
Giannis Antetokounmpo. AFP

Mál gríska körfuknattleiksmannsins Giannis Antetokounmpo hefur verið mjög til umfjöllunar í fjölmiðlum bæði í Evrópu og Ameríku síðustu daga. Innan gríska körfuknattleikssambandsins eru menn vægast sagt reiðir yfir því að leikmaðurinn skuli ekki lengur gefa kost á sér í lokakeppni EM en þar mæta Grikkir okkur Íslendingum í fyrsta leik liðanna í riðlakeppninni 31. ágúst. Bæði Milwaukee Bucks og NBA hafa nú svarað ásökunum Grikkja fullum hálsi.

Antetokounmpo, sem fengið hefur gælunafnið The Greek Freak í bandarískum fjölmiðlum, er nú staddur í Kína í erindagjörðum fyrir NBA sem einhvers konar sendiherra deildarinnar. Þangað fór hann úr æfingabúðum gríska landsliðsins og hafði tekið þátt í einum vináttulandsleik í sumar.

Antetokounmpo greindi frá því á samfélagsmiðlum að hann væri hættur við að spila á EM vegna hnémeiðsla. Sagðist hafa farið í læknisskoðun og fundið fyrir sársauka. Antetokounmpo lét þess einnig getið að hann yrði að fara varlega í ljósi þess að nýr samningur hans við Milwaukee tekur gildi í september. Lýsti hann stöðunni sem upp er komin sem mestu vonbrigðum á sínum ferli.

Um klukkutíma síðar sendi gríska sambandið frá sér harðorða yfirlýsingu og sakaði þar Milwaukee Bucks og NBA-deildina um að hafa hannað atburðarásina. Aldrei hefði staðið til að leyfa leikmanninum að spila á EM frá amerísku bæjardyrunum séð og hann hefði verið beittur þrýstingi. Grikkir voru vongóðir um að berjast um sigurinn á EM en þessi mikla körfuboltaþjóð fagnaði síðast sigri í keppninni árið 2005.

Fréttaskýringin í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert