Getum strítt þeim með íslenska hjartanu

Brynjar Þór Björnsson fyrirliði KR lyftir Íslandsmeistarabikarnum.
Brynjar Þór Björnsson fyrirliði KR lyftir Íslandsmeistarabikarnum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er stutt frí og maður hefði vissulega viljað aðeins lengri undirbúning fyrir svona stóran leik eins og þennan,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði Íslandsmeistara KR í körfuknattleik, í samtali við mbl.is en í kvöld munu KR-ingar stíga inn á svið Evrópukeppninnar – fyrst íslenskra félagsliða í áratug.

KR tekur á móti Belfius Mos-Hainaut frá Belgíu í fyrri viðureign liðanna í DHL-höllinni í kvöld, en Brynjar og aðrir landsliðsmenn KR hafa lítið frí fengið eftir Evrópumótið fyrr í mánuðinum. Að sama skapi hefur lið KR lítið getað æft saman, en hversu dýrt getur það reynst?

„Ég hef svo sem engar áhyggjur af því en ég hefði viljað hafa lengri tíma, viku eða tvær til viðbótar. Núna getur maður hugsað hvernig það er fyrir íslensku liðin í fótboltanum gegn erlendum liðum sem þá eru nýbyrjuð á undirbúningstímabilinu. Það gefur oft séns og þannig er staðan hjá okkur núna, við erum ekki á þeim stað sem við vildum en svona er þetta bara,“ sagði Brynjar.

Hann á von á því að Belgarnir verði öflugir en íslensku eiginleikarnir verði til staðar hjá KR.

„Við munum sjá hverjir þeirra veikleikar eru og reyna að sækja á okkar styrkleikum. En auðvitað eru þeir bæði stærri og sterkari bara eins og á EM, þetta eru öflugri íþróttamenn heldur en við. Ég hef hins vegar trú á því að við getum aðeins strítt þeim með íslenska hjartanu.“

Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson hafa fengið lítið …
Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson hafa fengið lítið frí. mbl.is/Golli

„Veit að það er erfitt að styðja KR“

KR var síðasta íslenska félagsliðið til þess að taka þátt í Evrópukeppni árið 2008 og því hefur biðin verið löng. Þetta er því mikilvægt skref fyrir íslenskan körfubolta að fá félagslið á sviðið á ný.

„Það er bara nauðsynlegt og ég vona að hér eftir muni alltaf lið eiga eftir að taka þátt í Evrópukeppni. Þetta gerir svo mikið bæði fyrir liðið sjálft og íþróttina að vera með í Evrópukeppni, það eykur bara umfjöllun og áhuga á íþróttinni og þar af leiðandi er þetta mjög spennandi verkefni.“

Má þá ekki eiga von á því að mikil dagskrá verði í kringum leikinn hjá KR-ingum og vel stutt við bakið á liðinu?

„Ég vona að það verði gaman og áhorfendur annarra liða mæti líka og styðji okkur. Ég veit að það er erfitt að styðja KR, en það er alltaf þannig að ef íslenskt lið er í Evrópukeppni vill maður að viðkomandi lið fari sem lengst og auki hróður íslenska körfuboltans,“ sagði Brynjar Þór Björnsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert