„Við þurfum stuðning úr stúkunni“

Jón keyrir að körfu belgíska liðsins.
Jón keyrir að körfu belgíska liðsins. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér fannst allir lélegir. Mér fannst við (leikmennirnir) lélegir og mér fannst stúkan léleg,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við mbl.is í Frostaskjóli í kvöld en þar tapaði KR 67:88 fyrir belgíska liðinu Belfius í Evrópubikarnum. Jón saknar þess að KR skuli ekki eiga harðan stuðningsmannakjarna sem heldur uppi stemningu á leikjum. 

„Það er gaman að taka þátt í þessu og þetta er góð reynsla en ég hefði viljað sjá meiri stemningu hérna í dag. Við þurfum að fá betri stuðning. Við erum að leiðinni inn í nýtt tímabil þar sem við ætlum að vinna titla og þurfum stuðning úr stúkunni. Mér finnst allt of mikið um að fólk komi á leikina og ætlist bara til þess að við vinnum. Ég vona að það sé ekki raunin þegar lið kemur hingað frá Belgíu. Við hefðum þurft á miklu meiri stuðningi að halda í þetta skiptið. Það eru allir glaðir þegar vel gengur en stundum þurfum við kraft frá okkar stuðningsmönnum. Mér fannst það bara vanta í kvöld,“ sagði Jón Arnór og hefur nokkuð til síns máls en furðu hljótt var í DHL-höllinni ef mið er tekið af því að um 600 manns voru mætt á áhorfendapallana. 

Leikmenn belgíska liðsins hittu vel og settu til dæmis niður 12 af 20 þriggja stiga skotum sínum. „Þeir voru beittir í seinni hálfleik og þá sá maður miklu meiri yfirvegun í þeirra leik. Þá héldu þeir ró sinni og biðu eftir réttu tækifærunum til að gera út um leikinn. Þeir gerðu það vel og nían (Tre Demps) er mjög góður leikmaður og stjórnaði þessu vel hjá þeim. Auk þess hittu þeir vel og við hefðum þurft að vera miklu betur samstilltir til að geta lokað vörninni,“ sagði Jón ennfremur sem skoraði 15 stig og gaf 5 stoðsendingar í leiknum. 

Darri Hilmarsson og Jón Arnór fara yfir málin í kvöld.
Darri Hilmarsson og Jón Arnór fara yfir málin í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert