Undir Þórsurum komið að sagan endurtaki sig ekki

Júlíus Orri Ágústsson, 16 ára, er einn þeirra efnilegu stráka …
Júlíus Orri Ágústsson, 16 ára, er einn þeirra efnilegu stráka sem Þórsarar binda vonir við. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Óhætt er að segja að körfuknattleikslið Þórs frá Akureyri hafi gengið í gegnum tímana tvenna síðastliðna áratugi. Frá upphafi hefur verið reynt að byggja sem mest á heimamönnum sem koma upp yngri flokkana og hefur uppgangurinn því komið nokkuð í bylgjum. Þess á milli hefur fallið stundum verið hátt, en Þórsarar eru þekktir fyrir að halda alltaf ótrauðir áfram og byrja að byggja upp á ný þegar á móti blæs. Nú er liðið á öðru tímabili sínu í efstu deild eftir nokkra fjarveru þar áður, en uppgangur Þórs hefur verið hraður síðustu ár.

Veturinn 2014-2015 hafnaði Þór í neðsta sæti 1. deildar, vann aðeins einn sigur og hélt aðeins sæti sínu þar sem fjölgað var um lið í deildinni. Metnaðurinn til að gera betur var hins vegar mikill og eftir tímabilið var Benedikt Guðmundsson, einn fremsti körfuknattleiksþjálfari landsins, ráðinn þjálfari bæði karla- og kvennaliðs félagsins.

„Ég set stefnuna á efstu deild sem allra fyrst. Hvort það tekst á fyrsta ári verður bara að koma í ljós en maður horfir á að ná því á öðru ári, ekki seinna,“ sagði Benedikt við Morgunblaðið eftir ráðninguna vorið 2015, en óhætt er að segja að áætlunin hafi gengið eftir. Strax á fyrsta tímabili Benedikts vann Þór 1. deildina og tryggði sér sæti í efstu deild á ný eftir sjö ára fjarveru.

Í fyrra voru Þórsarar því nýliðar í efstu deild á öðru tímabili Benedikts með liðið. Strax var búist við miklu og var liðinu meðal annars spáð sæti í úrslitakeppninni fyrir tímabilið. Það gekk eftir þar sem Þór hafnaði í 8. sæti deildarinnar en tapaði svo fyrir deildar- og verðandi Íslandsmeisturum KR í átta liða úrslitunum síðasta vor. Árangurinn var góður og héldu flestir að grunnurinn væri fyrir hendi að því að festa Þórsliðið loks í sessi í efstu deild á ný.

Ítarlega umfjöllun um karlalið Þórs í körfubolta má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert