Grindvíkingar skipta Whack út

Rashad Whack í leik gegn ÍR á dögunum.
Rashad Whack í leik gegn ÍR á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bandaríski körfuboltamaðurinn Rashad Whack, sem ekki hefur þótt standa undir væntingum í liði Grindavíkur í vetur, mun ekki leika með liðinu eftir jólafríið.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga, staðfesti það við Vísi í dag að Whack myndi yfirgefa liðið en samkvæmt frétt miðilsins er þó hugsanlegt að hann spili síðasta leik liðsins fyrir jól, gegn Þór á Akureyri á fimmtudaginn.

Jóhann kvaðst vera með nokkur nöfn á blaði sem hugsanlega arftaka Whack en ekki er ljóst hver verður fyrir valinu. Jón Axel Guðmundsson, fyrrverandi leikmaður Grindavíkur, er meðal þeirra sem kallað hafa eftir því að Grindavík fái aftur Lewis Clinch, sem fór með liðinu í úrslitaeinvígið síðasta vor og gerði það einnig árið 2014, en Jóhann tjáði sig ekkert um það.

Whack hefur skorað 22,8 stig að meðaltali í leik í Dominos-deildinni í vetur, tekið 4,5 fráköst og átt 2,6 stoðsendingar. Grindavík, sem spáð var 3. sæti deildarinnar í haust, er í 8. sæti með 10 stig eftir 10 umferðir, en þó aðeins fjórum stigum frá toppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert