Neðsta liðið skellti því efsta

David Nwaba hjá Chicago verst Terry Rozier hjá Boston í …
David Nwaba hjá Chicago verst Terry Rozier hjá Boston í leik liðanna í nótt. AFP

Chicago Bulls hefur varla unnið leik í NBA-deildinni í körfuknattleik undanfarnar vikur en í nótt gerði liðið sér lítið fyrir og vann stórsigur á toppliði Boston Celtics, 108:85.

Nikola Mirotic skoraði 24 stig fyrir Chicago og Bobby Portis gerði 23 en sá síðarnefndi setti með því persónulegt met í deildinni. Chicago hafði aðeins unnið sex af fyrstu 26 leikjum sínum á tímabilinu og er með lakasta árangur allra 30 liðanna í deildinni til þessa. Boston, sem er efst í Austurdeildinni með 23 sigra í 29 leikjum, saknaði Kyrie Irving sem er meiddur. Al Horford skoraði mest fyrir liðið, 13 stig.

Kevin Durant skoraði 28 stig fyrir Golden State sem sigraði Portland í hörkuleik, 111:104. Damian Lillard skoraði 39 stig fyrir Portland.

Slóveninn snjalli Goran Dragic skoraði 19 stig fyrir Miami Heat sem vann stórsigur á Memphis Grizzlies á útivelli, 107:82.

James Harden skoraði 26 stig og átti heilar 17 stoðsendingar fyrir Houston Rockets sem vann New Orleans Pelicans, 130:123. Jrue Holiday gerði 37 stig fyrir New Orleans. Houston vann sinn 10. leik í röð og er með bestan árangur allra liða í deildinni til þessa, 21 sigur í 25 leikjum.

Chicago - Boston 108:85
Houston - New Orleans 130:123
Memphis - Miami 82:107
Oklahoma City - Charlotte 103:116
Golden State - Portland 111:104
LA Clippers - Toronto 96:91

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert