Fengum framlag frá mörgum af bekknum

Darri Freyr Atlason ræðir við sitt lið í kvöld.
Darri Freyr Atlason ræðir við sitt lið í kvöld. mbl.is/Hari

„Snæfell er með flott lið sem spilar góða vörn og við fundum sérstaklega fyrir því gegn þeim í bikarnum um daginn en við náðum að vinna í dag með streði,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, eftir 88:73 sigur á Snæfelli í 13. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta.

Liðin mætt­ust á sunnu­dag­inn var í átta liða úr­slit­um Malt­bik­ars­ins og bar Snæ­fell sig­ur úr být­um í hörku ein­vígi þar sem Berg­lind Gunn­ars­dótt­ir tryggði sig­ur­inn með flautukörfu en Darri segist ekki hafa verið sérstaklega á höttunum eftir hefnd í kvöld.

„Þú nærð ekki fram neinum hefndum í svona leik en við leyfðum okkur að vera aðeins súrar yfir því tapi og ætlum að reyna nota það áfram.“

Snæfellingar eru nokkuð þunnskipaðir um þessar mundir og voru til að mynda aðeins með þrjá varamenn á bekknum og segir Darri að það hafi spilað inn í að Snæfellingarnir þreyttust undir lokin.

„Það spilar auðvitað inn í en við leggjum ekki leikina þannig upp. Í dag fengum við frábært framlag frá mörgum af bekknum og það skipti sköpum núna. Við erum með jafnt og gott lið, marga leikmenn sem geta unnið einn á einn baráttu á báðum endum og við nýttum það vel í dag.“

Valur hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð eftir að hafa tapað tveimur þar áður og er liðið á toppi deildarinnar með 20 stig.

„Eins og ég sagði við einhvern eftir Keflavíkur leikinn, við vorum góðar í þeim leik en lélegar gegn Breiðablik. Það var svo bara tilviljun að þeir leikir komu í röð. Við höfum verið nokkuð stöðugur í deildinni og okkur líður vel, við getum gert betur og ætlum að nýta jólafríið til að vinna í þeim þáttum sem við getum bætt,“ sagði Darri að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert