Hildur og Martin fólk ársins hjá KKÍ

Hildur Björg Kjartansdóttir
Hildur Björg Kjartansdóttir mbl.is / Hari

Atvinnumennirnir Hildur Björg Kjartansdóttir og Martin Hermannsson hafa verið valin körfuboltafólk ársins af Körfuknattleikssambandinu. 

Thelma Dís Ágústsdóttir varð önnur og Helena Sverrisdóttir þriðja. Hjá körlunum varð Tryggvi Snær Hlinason annar og Haukur Helgi Pálsson þriðji. 

Í umsögnum um Hildi og Martin segir: 

„Hildur Björg er að hljóta nafnbótina „Körfuknattleikskona ársins” í fyrsta sinn. Hildur Björg lauk háskólaferli sínum með UTPA háskólanum í Texas í vor þar sem hún stóð sig vel og bætti sinn leik og stefndi á tímabil hér heima í kjölfarið í vetur. Áður en tímabilið hófst samdi Hildur Björg áður við Legonés á Spáni sem leikur í næst efstu deild þar í landi. Hildur Björg hefur farið vel af stað með liði sínu á Spáni og liðinu gengið vel og er í öðru sæti í sinni deild. Með landsliðinu lék Hildur Björg á Smáþjóðaleikunum í San Marinó í byrjun sumars, þar sem íslenska liðið hafnaði í öðru sæti, og í undankeppni EM núna í nóvember  þar sem hún var með 16 stig að meðaltali á um 34 mínútum að meðaltali. Með landsliðinu er Hildur Björg orðin ein af lykilleikmönnum liðsins og hefur sýnt í þeim leikjum sem búnir hvers hún er megnug og mun án efa bæta sig meira sem atvinnumaður í körfuknattleik á næstu árum.“

„Martin er orðin einn af betri leikmönnum íslenska landsliðsins á sínu 23. aldursári og einn af framtíðarburðarásum landsliðsins. Martin lék á síðsta tímabili með Étoile de Charleville-Mézéres í næstefstu deild í Frakklandi, þar sem hann hlaut viðurkenningar fyrir sína frammstöðu í lok tímabilsins, og var í úrvalsliði deildarinnar. Í kjölfarið samdi hann við Châlons-Reims sem leikur í efstu deild og hefur staðið sig frábærlega það sem af er tímabilinu. Í sumar lék Martin alla leiki íslenska landsliðsins í undirbúningi sumarsins og svo í kjölfarið á sínu öðru Evrópumóti, EuroBasket 2017, sem fram fór í Finnlandi. Þar var Martin var einn af betri leikmönnum íslenska liðsins. Á lokamótinu leiddi Martin íslenska liðið í þrem af helstu fjórum tölfræðiþáttunum. Hann var með flest stig (12.6), flestar stoðsendingar (3.6) og hæsta framlagið (12.6) að meðaltali í leik, auk þess að vera í öðru sæti yfir flest fráköst (4.0).“

Martin Hermannsson
Martin Hermannsson mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert