LeBron jafnaði met og Cleveland setti met

LeBron James var öflugur að vanda í sigri Cleveland í …
LeBron James var öflugur að vanda í sigri Cleveland í nótt. AFP

LeBron James jafnaði persónulegt met í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt þegar hann átti 17 stoðsendingar fyrir Cleveland Cavaliers í sigri á Atlanta Hawks, 123:114.

Hann skoraði auk þess 25 stig og stoðsendingarnar 17 færðu liðinu 42 stig, átta þeirra skiluðu þriggja stiga körfum, en Cleveland setti jafnframt nýtt félagsmet með því að skora 10 eða fleiri þriggja stiga körfur í sautjánda leiknum í röð.

„Þetta er einföld og árangursrík formúla. Þú ert með frábæran leikmann og stillir upp góðum 3ja stiga skyttum í kringum hann. LeBron er auðvitað magnaður leikmaður og við náðum að verjast honum vel en þegar við settum pressu á hann lagði hann upp opin skot fyrir hina," sagði Mike Budenholzer þjálfar Atlanta.

Þetta var 20. sigur Cleveland í fyrstu 28 leikjunum og liðið er í öðru sæti Austurdeildar, á eftir Boston Celtics.

Kristaps Porzingis skoraði 37 stig og tók 11 fráköst  fyrir New  York Knicks sem vann LA Lakers 113:109 í framlengdum leik í Madison Square Garden. Lonzo Ball skoraði 17 stig fyrir Lakers.

Cleveland - Atlanta 123:114
Detroit - Denver 84:103
New York - LA Lakers 113:109 (framlengt)
Brooklyn - Washington 103:98
Dallas - San Antonio 95:89
Minnesota - Philadelphia 112:118 (framlengt)
Sacramento - Phoenix 99:92

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert