„Allir geta sett niður víti“

Daði Lár Jónsson
Daði Lár Jónsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Daði Lár Jónsson sýndi stáltaugar í Hertz-Hellinum í Seljaskóla í kvöld þegar hann setti niður þrjú víti á lokasekúndu venjulegs leikatíma fyrir Keflavík gegn ÍR og knúði fram framlengingu. Því miður fyrir hann og Keflvíkinga þá höfðu ÍR-ingar betur þegar uppi var staðið 96:92. 

„Þetta var bara eins og hver annar dagur á skrifstofunni. Allir geta sett niður víti og af hverju ekki á þessum tímapunkti? Víti eru alltaf eins. Maður er alltaf jafn langt frá körfunni og boltinn alltaf jafn stór,“ sgaði Daði þegar mbl.is spjallaði við hann í Breiðholtinu í kvöld. 

„Við hefðum þurft að ná oftar að stöðva þá í vörninni þegar komið var í framlenginguna. Við fengum tækifæri til að klára dæmið því við náðum fimm stiga forskoti í byrjun framlengingar. Þá hefðum við átt að jarða leikinn en gerðum það ekki. Við settum ekki niður þrista sem við eigum að geta gert. Það er okkar leikur að skjóta þristum og okkur sjálfum að kenna að hafa ekki unnið. Það er alltaf leiðinlegt að tapa og leiðinlegra að tapa eftir framlengingu. Ekki er gefið að koma í Breiðholtið og sigra en við hefðum átt að gera það í þetta skiptið.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert