„Leiðinlegast við þetta starf“

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Þórs.
Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Þórs. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, í Dominos-deild karla í körfubolta kom í viðtal eftir afar spennandi lokamínútur í leik Þórs og Grindavíkur í kvöld. Lið hans virtist lengstum ekki eiga séns en gríðarleg barátta undir lokin kom Þór inn í leikinn og litlu munaði að Ingvi Rafn Ingvarsson hefði jafnað leikinn í blálokin. Grindavík vann 83:79 eftir að hafa skorað úr vítaskoti á lokasekúndunni.

Þetta munaði ekki miklu.

„Hálfur þriðji leikhlutinn og megnið af fjórða leikhluta var bara góður af okkar hálfu. Fram að því þá vorum við bara á hælunum. Það vantaði alla þessa stemningu og geðveiki sem við höfum verið að sýna. Kannski var það af því að það vantaði trommurnar en við áttum erfitt með að gíra okkur almennilega upp. Það gerðist ekki fyrr en um miðjan þriðja leikhlutann og þá var allt annan bragur á leik okkar.“

Því verður ekki neitað að Grindvíkingar virtust bara halda að þetta væri komið hjá þeim.

„Já, kannski héldu þeir það. Við hins vegar trúðum því fyrir leikinn að við gætum unnið þá hér á heimavelli. Því miður þá vorum við hálf undarlegir í byrjun en komum loks til baka.“

Það munaði ekki miklu að Ingvi rafn næði að jafna leikinn.

„Þetta var erfiður þristur hjá honum en þeir gerðu vel að loka á þessa sókn. Við náðum þó skotinu það það hefði vel getað endað í körfunni.“

Hvernig standa málin með erlendan leikmann? Þið hafið verið Kanalausir síðustu tvo leiki.

„Marques er meiddur og farinn heim til sín. Hann verður ekkert með fyrr en eftir átta vikur þannig að ég er bara að leita að nýjum Kana. Síðustu tvær vikur hafa verið glataðar. Það er ömurlegt að vera að leita að Kana, það leiðinlegasta við þetta starf. Ég tel að við séum að landa ákveðnum leikmanni.“

Þannig að þú sérð fram á bjartari tíma með hækkandi sól.

„Já við förum á flug aftur á nýju ári. Áramótaheitið er að vinna sex leiki í deildinni eftir áramót“ sagði Hjalti Þór brattur. Þess má geta að á meðan viðtalið var tekið fyrir utan búningsklefa Þórsara ríkti gleði og glaumur þar og bárust læti og hlátrasköll greinilega fram á gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert