Naumur sigur Grindavíkur í alíslenskum leik

Þór Akureyri tapaði naumlega fyrir Grindavík í kvöld.
Þór Akureyri tapaði naumlega fyrir Grindavík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór frá Akureyri og Grindavík áttust við á Akureyri í kvöld í Dominos-deild karla í körfubolta. Leikurinn verður að teljast merkilegur fyrir þær sakir að enginn útlendingur lék með liðunum. Grindavík knúði fram sigur, 83:79.

Þórsarar voru búnir að missa Marques Oliver í meiðsli og Grindvíkingar létu Rashad Whack fara. Hvor þeirra var að skora í kringum 20 stig að meðaltali og því þurftu aðrir að taka við. Það væri gaman ef einhver spekingurinn gæti grafið það upp hvenær bæði lið mættu alíslensk til leiks í efstu deild í körfubolta.

Leikurinn var hinn rólegasti lengi framan af og leiddu Grindvíkingar allan fyrri hálfleikinn. Þeir virtust leggja upp með að sækja grimmt undir körfuna hjá Þór þar sem þeir höfðu ákveðna yfirburði. Þórsarar sýndu flotta takta og héngu vel í gestunum þar til rétt fyrir hálfleikshléið en þá kom góður kafli Grindvíkinga. Leiddu þeir 50:37 í hálfleik.

Á tímabili virtust Grindvíkingar vera að stinga af en þrír þristar Þórsara minnkuðu muninn í 58:48. Dagur Kár Jónsson sá helst til þess að Þórsarar kæmust ekki nær og brátt jókst munurinn á ný. Þórsarar virtust aldrei líklegir til að sprengja leikinn upp og þjarma að Grindvíkingum þar sem leikurinn var smám saman að lognast útaf. En það gerðist samt á lokakaflanum. Þórsarar tóku flottan sprett og fengu lokaskotið. Það dansaði á hringnum. Grindavík bætti svo við stigi á lokasekúndunni og gat því fagnað naumum sigri 79:83.

Þórsarar eru nú búnir að tapa sjö leikjum í röð í deildinni og verða að fá til sín öflugan leikmann sem fyrst Hilmar Smári Henningsson var að spila fyrsta leik sinn fyrir Þór og lofar hann góðu.

Þór Ak. 79:83 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert