Skotæfingar allt jólafríið

Pétur Már Sigurðsson ræðir við sitt lið í dag.
Pétur Már Sigurðsson ræðir við sitt lið í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur eftir 65:51-tap sinna manna gegn Val í Dominos-deild kvenna í körfubolta í dag. Hann segir skotnýtingu sinna kvenna hafa orðið þeim að falli.

„Skotnýtingin er það sem skilur liðin að. Við fengum fullt af opnum skotum, fullt af sóknarfráköstum, vörnin var góð en skotnýtingin var það ekki. Við vorum ógeðslega duglegar, en það var einhver andleg blokkering í skotunum. Boltinn rúllaði nefnilega vel og við vorum að fá opin skot," sagði Pétur í samtali við mbl.is í dag áður en hann hélt áfram. 

„Ég treysti öllum mínum leikmönnum til að skjóta og það versta sem ég veit um er þegar leikmenn eru ragir við að skjóta. Ég hef aldrei þurft að segja leikmönnum eins oft að skjóta, því við vorum hikandi. Við reyndum að byggja upp sjálfstraust, það fór fyrir bí og við fórum að velja vitlaus skot. Þetta fór inn í hausinn á mönnum. Við vorum að spila mjög vel en skotin duttu ekki. Við getum ekki skotið 19% ef við ætlum að vinna Val."

„Þær þéttu inn í teiginn og voru að gefa okkur skot og voru að mana okkur í að skjóta boltanum. Þá mana ég þann mann til að skjóta boltanum og þá sækjum við sóknarfrákastið. Við erum með stelpur sem eru að hitta illa í dag sem eru ekki svona lélegar skyttur, heldur mjög góðar. Leikplanið þeirra gekk upp í dag, en við nýttum sóknarfráköstin okkar illa."

Danielle Rodriguez skoraði 17 stig í leiknum, 29 stigum minna en í síðasta leik. Hún hefur aðeins skorað minna í einum leik í vetur. 

„Þær spiluðu góða vörn á hana. Lexi og Dani voru að spila frábæra vörn á hvora aðra í allan dag og fengu hjálp. Dani hitti svo illa líka fyrir utan. Ég vissi að þetta yrði öðruvísi leikur en á miðvikudaginn. Þetta eru allt öðruvísi lið."

Þrátt fyrir tapið fer Pétur nokkuð sáttur í jólafríið, en deildin er komin í frí til næsta árs. 

„Ég fer ágætlega sáttur. Það var góð stemning í liðinu í dag og við vorum að gera vel fyrir utan að hitta. Við höfum verið duglegar í vetur og átta sigrar er allt í lagi. Vonandi getum við bætt í þetta eftir áramót," sagði Pétur. 

Næsta markmið er úrslitakeppnin

Ragna Margrét Brynjarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, tók í sama streng og þjálfarinn sinn.

„Munurinn var sá að þær hittu betur. Við fengum fullt af sóknarfráköstum en hittum ekki neitt. Þær hittu svo mun betur undir lokin. Það verða skotæfingar allt jólafríið," sagði hún létt og hélt áfram.

„Við erum í betri stöðu en síðasta tímabil. Við erum í efri hlutanum eins og við ætluðum okkur. Næsta markmið er úrslitakeppnin og vonandi höldum við áfram að bæta okkur," sagði Ragna að lokum. 

Ragna Margrét Brynjarsdóttir í baráttunni við Elínu Sóley Hrafnkelsdóttur í …
Ragna Margrét Brynjarsdóttir í baráttunni við Elínu Sóley Hrafnkelsdóttur í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert