Þeir opna okkur eins og gatasigti

Guðmundur Helgi Pálsson var ekki sáttur við leik sinna manna.
Guðmundur Helgi Pálsson var ekki sáttur við leik sinna manna. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Þjálfari Framara, Guðmundur Helgi Pálsson, hefur áhyggjur af varnarleik sinna manna og ætlar að nota næstu vikur til þess að laga hann.

Framarar lentu á vegg á Selfossi í kvöld og töpuðu 36:29 í 14. umferð Olísdeildar karla í handbolta.

„Selfyssingar voru frábærir, fyrst og fremst. Það var stöngin inn hjá þeim en stöngin út hjá okkur. Við erum með níu skot fram hjá í fyrri hálfleik og markmaðurinn þeirra að taka fullt af dauðafærum frá okkur. Þá fer leikurinn hægt og bítandi í burtu frá okkur,“ sagði Guðmundur Helgi í samtali við mbl.is eftir leik.

„Varnarleikurinn er áhyggjuefni hjá okkur. Við þurfum að fá stöðugleika þar og þá kemur markvarslan og allt hitt með. Ég held að við séum með langflest mörk fengin á okkur í deildinni og það er það sem við þurfum að laga. Við höfum góðan tíma í það núna,“ bætti Guðmundur við.

Nú tekur við rúmlega sex vikna hlé á deildinni og Framþjálfarinn segir að ýmislegt þurfi að laga eftir fyrri hluta mótsins.

„Við erum með átta stig og það tekur þau enginn af okkur. En við þurfum að nýta tímann til að laga spilamennskuna og horfa í það. Það er einna helst varnarleikurinn, því við erum með hörku sóknarlið og skorum alltaf fullt af mörkum. Það er staðreynd. Nú er bara að senda menn í lyftingasalinn og kjöta sig aðeins upp,“ sagði Guðmundur enn fremur. Og hann hrósaði andstæðingunum í kvöld.

„Selfyssingar eru frábærlega þjálfaðir. Í hörkuformi og með frábæran þjálfara. Þeir eru sterkir maður á mann og mjög hraðir. Þegar við náum ekki að vinna einvígin maður á mann þá opna þeir okkur bara eins og gatasigti. Þá slitnar þetta allt í sundur og við náum ekki upp neinni stemmningu. Þá er leikurinn farinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert