Nauðgað af íþróttamanni og fékk samfélagið á móti sér

Embla Kristínardóttir fagnar bikarmeistaratitli með Keflavík um liðna helgi.
Embla Kristínardóttir fagnar bikarmeistaratitli með Keflavík um liðna helgi. mbl.is/Hari

„Af því að hann var svo flottur og mikil fyrirmynd í sinni íþrótt og landsliðsmaður, þá var þetta allt mér að kenna,“ segir Embla Kristínardóttir, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur í körfuknattleik, en hún hefur stigið fram og sagt frá því þegar fullorðinn frjálsíþróttamaður nauðgaði henni.

Embla stígur fram í viðtali við Rúv, en þegar nauðgunin átti sér stað var hún 13 ára og hann var um tvítugt. Hún segir að Keflavík, heimabær hennar, hafi verið klofinn vegna málsins en um afreksmann í frjálsum íþróttum var að ræða

„Ég bý í Keflavík og bærinn skiptist, það var svona mín hlið og hans hlið, út af því að hann átti ættingja í bænum. Og ég var dæmd mjög mikið, fyrir að vera drusla og ekki að virða mig, í staðinn fyrir að fólk myndi hugsa um hvað hann hefði gert. Ég fékk miða í skápinn minn að ég væri drusla og að ég ætti bara að leggja málið niður. Eftir íþróttatíma var fötunum mínum hent í sturtuna,“ segir Embla meðal annars.

Maðurinn var að lokum dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni, en Embla segir að annars hafi ekkert verið gert í málinu. Lífið átti bara að halda áfram og alltaf var tekin afstaða með manninum.

„Það er ekkert gert í þessu og þá finnst mér íþróttafélagið taka afstöðu með honum. Við spiluðum oft úrslitaleiki í íþróttahúsinu þar sem hann æfir. Þetta eru mikilvægustu leikirnir og mér fannst alltaf mjög erfitt að mæta í þessa leiki. Það er það sem ég skil ekki, af hverju á okkur alltaf að líða svona illa? Af hverju er það ekki öfugt?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert