Grindavík vann grannaslaginn stórt

Ólafur Ólafsson átti góðan leik fyrir Grindavík í kvöld.
Ólafur Ólafsson átti góðan leik fyrir Grindavík í kvöld. Eggert Jóhannesson

Grindvíkingar rótburstuðu nágranna sína í Keflavík, 85:60, í 14. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í Mustad-höllinni í kvöld. Gestirnir áttu afleitan dag og skoruðu til að mynda aðeins sex stig í öðrum leikhluta en Grindvíkingar tóku heldur betur stórt skref í átt að úrslitakeppninni með frábærri frammistöðu.

Hörður Axel Vilhjálmsson setti niður fyrstu tvö stig leiksins sem væri varla frásagnarvert nema að þetta var eina tveggja stiga karfa Keflavíkur í öllum fyrri hálfleiknum. Grindvíkingar voru töluvert sterkari, fyrir utan smá titring í byrjun, en Sigurður Gunnar Þorsteinsson var sérstaklega sterkur og nýtti hæð sína vel.

Keflvíkingar hittu vel úr þriggja stiga skotum sínum framan af og var staðan 17:17 eftir fyrsta leikhlutann en svo hættu þeir að hitta úr skotum fyrir utan línuna og þá datt botninn úr spilamennsku liðsins. Það gekk ekkert upp hjá Dominique Elliot, Bandaríkjamanni Keflavíkur, í fyrri hálfleik en hann skoraði ekki eitt einasta stig. Grindvíkingar unnu annan leikhluta 25:6 og var staðan því 42:23 í hálfleik en allir leikmenn heimamanna voru að spila gríðarlega vel.

Gestirnir spýttu í lófana í síðari hálfleik og fóru loks að skora en Elliott skoraði 11 stig í þriðja leikhlutanum. Grindvíkingar héldu hinsvegar áfram uppteknum hætti og var Ólafur Ólafsson frábær fyrir heimamenn, hann skoraði 17 stig og átti 10 fráköst. Þetta var þó liðsheildarsigur og fengu heimamenn mikið og gott framlag frá mörgum leikmönnum í kvöld.

Grindvíkingar skjótast upp í 5. sæti deildarinnar með þessum frábæra sigri og fara meðal annars upp fyrir granna sína í Keflavík sem nú sitja í 8. sæti.

Grindavík - Keflavík 85:60

Mustad höllin, Úrvalsdeild karla, 19. janúar 2018.

Gangur leiksins:: 10:2, 13:8, 15:14, 17:17, 23:20, 30:23, 34:23, 42:23, 45:29, 55:33, 58:40, 62:44, 68:50, 73:52, 80:56, 85:60.

Grindavík: Ólafur Ólafsson 17/10 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 16/8 fráköst, J'Nathan Bullock 16/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/11 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Dagur Kár Jónsson 8/8 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 7/5 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 6, Sverrir Týr Sigurðsson 3.

Fráköst: 35 í vörn, 11 í sókn.

Keflavík: Ragnar Örn Bragason 11, Dominique Elliott 11/5 fráköst, Daði Lár Jónsson 9/11 fráköst/5 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 8, Guðmundur Jónsson 6, Ágúst Orrason 6/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 5/4 fráköst/7 stoðsendingar, Magnús Már Traustason 4.

Fráköst: 22 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Georgia Olga Kristiansen.

Grindavík 85:60 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert