Úrslitaleikir fyrir tilveru okkar í körfubolta

Friðrik Ingi Rúnarsson segir Keflvíkinga vera berjast fyrir tilveru sinni …
Friðrik Ingi Rúnarsson segir Keflvíkinga vera berjast fyrir tilveru sinni í körfubolta. Eggert Jóhannesson

„Nú er það þannig að hver einasti leikur er úrslitaleikur fyrir tilveru okkar í körfubolta, það er bara þannig,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, hundsvekktur eftir stórtap gegn Grindavík, 85:60, í 14. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. Keflavík er nú í 8. sæti deildarinnar.

„Við létum sjálfstraustið snúast um sóknarleikinn en ekki eitthvað annað. Maður segir stundum að ef sóknin gengur ekki upp, þá er það engin afsökun að menn hlaupa ekki betur til baka og pikka ekki upp mennina sína og fráköstin. Það er oft það sem kemur mönnum í gang, að spila góðan varnarleik.“

Friðrik segir leikmenn sína vera berjast við taktleysi.

„Mér finnst við vera elta skottið á sjálfum okkur núna. Erum að elta ranga hluti og það er of mikið þannig hjá okkur að þetta snúist um að ef sóknarleikurinn er að virka, þá gengur vel en annars ekki. Við eigum ekki að hafa það svoleiðis en þessa daganna erum við að berjast við ákveðið taktleysi og við verðum að finna einhverjar leiðir.“

Keflavík setti aðeins eina tveggja stiga körfu niður fyrir hálfleik en bjargaði aðeins andliti með því að skora talsvert af þriggja stiga körfum í upphafi leiks. Þessi sóknarleikur er þó varla boðlegur?

„Nei og var ekki uppleggið eins og sumir halda. Uppleggið var að opna vörnina og það eru opnanir í vörn Grindavíkur en við nýttum okkur það ekki í dag. Þeir afklæddu okkur bara, við vorum að elta allan tímann og vorum bara bitlausir.“

„Sjálfstraustið var aldrei til staðar, Grindavík var einfaldlega miklu betri aðili hér í dag. Við vorum ekki góðir hér í dag, það er ljóst. Þegar menn eru andlausir og með lítið hjarta í hlutunum þá eru viðvörunarbjöllur.“

Dominique Elliott er fjórði Bandaríkjamaðurinn til að spila fyrir Keflavík í vetur en hann skoraði ekki eitt einasta stig í fyrri hálfleik. Honum gekk aðeins betur í þeim seinni og endaði með 11 stig og fimm fráköst en Friðrik vildi þó ekki taka frammistöðu hans sérstaklega út.

„Hann var ekki góður í þessum leik frekar en aðrir. Það voru fleiri máttarstólpar sem áttu slæman dag og ég tek hann ekkert einan og sér út fyrir það, hann var ekkert verri en margir aðrir í liðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert