Við keyrðum yfir þá

„Það gekk flest upp í sókninni en við byrjuðum svolítið illa í vörn,“ sagði Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, eftir 85:60 stórsigur á Keflavík í 14. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Þegar vörnin fór svo að smella þá bara keyrðum við yfir þá, það sem skóp þennan sigur var vörnin.“

Keflvíkingar settu aðeins eina tveggja stiga körfu í öllum fyrri hálfleik en héldu sér þó inni í leiknum til að byrja með þökk sé fimm þriggja stiga körfum í röð. Ólafur segir lykilatriði hafa verið að stoppa það.

„Við vorum frekar að reyna loka á þriggja stiga skotin, þeir hittu úr mikið af hraðaupphlaups þristum í byrjun leiks. Jóhann tók leikhlé og við fórum yfir það að reyna minnka þetta og við gerðum það, eftir það var þetta nokkuð þægilegt.“

Gengi Grindavíkur hefur verið nokkuð slitrótt í vetur og segir Ólafur að mikilvægt sé að byggja á frammistöðu kvöldsins fyrir endasprett mótsins.

„Við þurfum að byggja ofan á það sem við gerðum hérna í kvöld. Við fögnum aðeins í kvöld og svo er bara Tindastóll á fimmtudaginn, það er hörku lið og við þurfum að gera okkur klára í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert