Hefur verið of mikið hringl á liðinu

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við náðum ekki krafti í okkar leik fyrr en of seint. Við réðum ekkert við Paul Jones framan af leiknum. Þegar við náðum að hemja Paul Jones þá tók Kári [Jónsson] við keflinu. Við gáfum allt of margar auðveldar körfur til þess að geta farið með sigur af hólmi,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is, eftir 91:89-tap liðsins gegn Haukum í toppslag í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

„Það hjálpaði okkur ekki að spila án Brandon Penn í þessum leik. Það var hluti af samkomulagi okkar við hann á sínum tíma að hann fengi að fara heim þessa helgi til þess að sinna nýfæddu barni. Þetta átti að vera fríhelgi, en mótanefnd KKÍ ákvað að fresta þessum leik. Það er bara eins og það er, en það er hins vegar engin afsökun fyrir þessu tapi,“ sagði Finnur Freyr allt annað en sáttur.

„Ég tek hluta ábyrgðarinnar klárlega á mig á þessum tveimur töpum í röð hjá okkur. Það hefur verið of mikið hringl á liðinu og þessi tíðu skipti á leikmönnum hjálpa augljóslega ekki til. Nú fáum við hins vegar tíma í landsleikjahléinu til þess að stilla saman strengi og búa okkur undir lokasprettinn í deildinni og úrslitakeppnina,“ sagði Finnur Freyr um undanfarna daga og framhaldið hjá KR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert