Tryggvi nýtist vel gegn Tékkum

Aðstoðarþjálfararnir Finnur Freyr Stefánsson og Arnar Guðjónsson ásamt Craig Pedersen …
Aðstoðarþjálfararnir Finnur Freyr Stefánsson og Arnar Guðjónsson ásamt Craig Pedersen í leiknum gegn Búlgaríu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Miðað við nafnalistann hjá Finnunum þá mæta þeir hingað með lið sem er talsvert breytt frá leik liðanna á EM í Helsinki,“ sagði Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik, þegar mbl.is ræddi við hann um leikina sem framundan eru í undankeppni HM gegn Finnum og Tékkum. 

Báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni en Ísland mætir Finnlandi annað kvöld, föstudagskvöld, og Tékklandi á sunnudaginn.

Eins og fram kom fyrr í vetur þá fá leikmenn ekki leyfi frá félögum í NBA og Euroleague til að spila landsleikina í undankeppni HM í vetur. Miðað við þær upplýsingar sem íslenski hópurinn hefur þá eru Finnarnir ekki með Lauri Markkanen hjá Chicago Bulls, Petteri Koponen hjá Barcelona, Sasu Salin hjá Unicaja Málaga né Gerald Lee hjá Maccabi Ashdod. Þeir voru ekki með Finnum í fyrstu leikjum undankeppninnar í nóvember.

„Leikmenn Finna spila engu að síður með sterkum liðum og liðið er vel mannað. Þeir eru líkamlega sterkir og hávöxnu mennirnir þeirra eru hreyfanlegir,“ sagði Pedersen en leikstíll Finna og Íslendinga hefur verið nokkur líkur síðustu árin þar sem menn eru hreyfanlegir og taka skot utan af velli.

Tryggvi Snær Hlinason treður í leiknum gegn Búlgaríu.
Tryggvi Snær Hlinason treður í leiknum gegn Búlgaríu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggvi Snær Hlinason hjá Valencia kemur ekki til móts við íslenska hópinn fyrr en á morgun, föstudag, eða á leikdegi, þar sem Valencia mætir Olympiacos í Evrópudeildinni í kvöld, fimmtudagskvöld. Hann nær því engri æfingu fyrir leikinn. Gera má ráð fyrir að Tryggvi verði í aukahlutverki í þeim leik en fái mikla ábyrgð gegn hávöxnu liði Tékka á sunnudaginn. 

„Finnska liðið hentar Tryggva ekki sérlega vel. Hávöxnu leikmennirnir fara töluvert út fyrir og skjóta þristum eins og Markkanen gerði á EM. Þeir myndu væntanlega draga leikmann eins og Tryggva nokkuð frá körfunni. Þeir gera það iðulega gegn hávaxnari mönnum. Við erum ánægðir með að nýta Tryggva sem mest gegn Tékkum því þarf þurfum við meira á honum að halda. Þeir eru með hávaxna menn sem Tryggvi gæti glímt við. Ég útiloka samt ekki að Tryggvi komi inn á gegn Finnlandi, sérstaklega ef við viljum fara aðrar leiðir í miðjum leik en þær sem lagt er upp með.“

Íslendingar voru án Jóns Arnórs Stefánssonar, Harðar Axels Vilhjálmssonar og Pavels Ermolinskij í fyrstu tveimur leikjunum í keppninni sem nú verða með. Ísland tapaði fyrsta leik sínum gegn Tékkum ytra í nóvember og tapaði naumlega fyrir Búlgaríu hér heima í leik þar sem íslenska liðið hafði frumkvæðið þar til á lokamínútunum. Því tapi hlýtur að hafa verið erfitt að kyngja fyrir Pedersen. 

„Já því við áttum góða möguleika á sigri og vorum yfir í liðlega 37 mínútur. Búlgararnir spiluðu betur en við síðustu fimm mínúturnar og ég hrósa þeim fyrir það. Við gerðum ákveðin mistök bæði leikmenn og þjálfarar en Búlgarar áttu góðar sóknir og settu niður erfið skot. Þannig fór það en mér fannst skelfilegt að tapa leiknum sérstaklega þar sem við spiluðum vel lengst af.“

Craig Pedersen fer yfir málin. Jón Arnór snýr nú aftur …
Craig Pedersen fer yfir málin. Jón Arnór snýr nú aftur eftir nárameiðsli. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert