Setur strik í reikning Hauka

Kári Jónsson í baráttu við KR-inginn Darra Hilmarsson.
Kári Jónsson í baráttu við KR-inginn Darra Hilmarsson. mbl.is/Styrmir Kári

Haukar urðu fyrir talsverðu áfalli í fyrrakvöld þegar bakvörðurinn öflugi Kári Jónsson fingurbrotnaði á æfingu með íslenska landsliðinu í körfuknattleik.

Kári verður ekki með Íslandi í leikjunum gegn Finnum í kvöld og Tékklandi á sunnudag, en skaðinn er mun meiri fyrir Hauka því ljóst er að Kári mun ekki spila með þeim í þremur síðustu umferðum Dominos-deildarinnar, gegn Stjörnunni, ÍR og Val. Þá verður hann í kapphlaupi við tímann um að ná að taka þátt í átta liða úrslitunum sem hefjast um miðjan mars.

Haukar eru með tveggja stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar og þegar er ljóst að þeir verða í einu af fjórum efstu sætunum og fá heimaleikjarétt í átta liða úrslitum. Þar geta þeir mætt Keflavík, Stjörnunni, Grindavík eða Njarðvík og ljóst er að án Kára gæti leiðin í undanúrslitin orðið torsótt.

Kári sagði við mbl.is í gær að hann væri með brot í þumalfingri hægri handar og gæti verið frá keppni í fjórar vikur. Úrslitakeppnin hefst 15. mars og því afar óvíst með þátttöku Kára þar. Hann kvaðst hinsvegar stefna á að ná fyrsta leik í úrslitakeppninni.

Kári hefur verið einn albesti leikmaður úrvalsdeildarinnar í vetur eins og Benedikt Guðmundsson hefur ítrekað fjallað um í pistlum sínum í blaðinu. Hann er stigahæsti maður Hauka, og stigahæsti Íslendingurinn í deildinni, með 19,8 stig að meðaltali og með flestar stoðsendingar hjá Haukum, 5,1 að meðaltali í leik, þar sem hann er fimmti efstur í deildinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert