Hildur best og Sandra á toppnum

Hildur Björg Kjartansdóttir.
Hildur Björg Kjartansdóttir. mbl.is/Hari

Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, var besti leikmaður Leganés í gærkvöld þegar liðið fór til Kanaríeyja og mætti þar Gran Canaria í uppgjöri efstu liða spænsku B-deildarinnar.

Gran Canaria vann öruggan sigur, 75:54, en Hildur var mjög atkvæðamikil og var bæði stigahæst og frákastahæst í liði Leganés, með 15 stig og 8 fráköst. Hún lék í 31 mínútu.

Gran Canaria er með 39 stig á toppi deildarinnar en Valencia og Leganés eru með 35 stig í öðru og þriðja sætinu.

Í Danmörku var Sandra Lind Þrastardóttir landsliðskona í sigurliði með Hørsholm gegn Virum, 80:61. Sandra skoraði 6 stig og tók 3 fráköst en hún lék í 20 mínútur. Hørsholm er með sex stiga forystu í dönsku úrvalsdeildinni en liðið hefur unnið 15 af 17 leikjum sínum í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert