Ótrúlega sætt þegar lokaflautið gall

Jakob og aðrir leikmenn landsliðsins heiðra Loga Gunnarsson í leikslok.
Jakob og aðrir leikmenn landsliðsins heiðra Loga Gunnarsson í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jakob Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfubolta, var hæstánægður með 76:75-sigurinn á Tékkum í undankeppni HM í Laugardalshöll í kvöld. Ísland náði mest 16 stiga forskoti í leiknum, en að lokum réðust úrslitin ekki fyrr en í blálokin, þegar Tékkar gátu tryggt sér sigurinn.

„Ég er ótrúlega ánægður að hafa unnið, það er það sem stendur upp úr. Takmarkið var alltaf að vinna leikinn, sama hvernig við myndum gera það. Auðvitað var þetta óþarflega spennandi undir lokin og mikið af mistökum hjá okkur. Það er hins vegar ótrúlega sætt þegar lokaflautið gall og við vorum enn yfir."

„Mér fannst við stjórna leiknum allan tímann og við vorum yfir allan tímann. Það var ekki fyrr en fjórar mínútur voru eftir sem að kom smá hik. Þeir urðu árásargjarnir á okkur og við tókum ekki á móti þeim eins og við gerðum allan leikinn."

„Þegar svona sterk lið koma með áhlaup að reyna að komast inn í leikinn í lokin þarf ekki mikið til. Hefðum við sett eina körfu t.d þá hefði þetta ekki endað svona. Það þurfti bara eina körfu á síðustu mínútunni til að anda aðeins, en hún kom ekki, en sem betur fer rann tíminn út."

Ondrej Balvin fékk tvö víti undir lok leiksins og gat þá jafnað leikinn. Hann klikkaði hins vegar á seinna skotinu og Tékkum mistókst að koma boltanum ofan í körfuna, þrátt fyrir að þeir náðu frákastinu. 

„Ég vonaðist til að hann klikkaði og við myndum ná frákastinu og slá boltann í burtu. Það voru þrjár sekúndur eftir og ef hann hefði klikkað þurftu þeir að skjóta strax aftur, sem þeir náðu á einhvern ótrúlegan hátt. Við gerðum hins vegar vel í að trufla í lokafrákastinu."

Jakob hefur leikið ófáa landsleiki með Loga Gunnarssyni, sem hefur leikið sinn síðasta landsleik. Jakob ber Loga vel söguna.

„Það er ekki hægt að lýsa því hvað Logi hefur gert fyrir landsliðið og körfuboltann á Íslandi. Við höfum spilað saman síðan árið 2000. Maður nýtur þess að vera með Loga í liði. Hann er frábær liðsfélagi og það skiptir engu máli hvort hann sé að spila 30 mínútur, eða á bekknum eins og í dag. Hann hvetur alla og gefur vel af sér til annarra leikmanna. Hann er ótrúlega góð fyrirmynd fyrir alla sem eru í körfubolta og öðrum íþróttum," sagði Jakob að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert