Tryggvi með gegn Tékkum í Höllinni í dag

Íslensku landsliðsmennirnir þakka áhorfendum stuðninginn eftir sigurinn á Finnum á …
Íslensku landsliðsmennirnir þakka áhorfendum stuðninginn eftir sigurinn á Finnum á föstudag. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mætir Tékkum í gríðarlega mikilvægum leik í undankeppni heimsmeistaramótsins í Laugardalshöllinni klukkan 16.00 í dag.

Tékkar eru efstir í F-riðli undankeppninnar, hafa unnið alla þrjá leiki sína og sigruðu Ísland 89:69 í fyrri leik þjóðanna á sínum heimavelli í nóvember.

Ísland, Finnland og Búlgaría hafa hins vegar unnið hvert annað og eru í mikilli baráttu um annað og þriðja sætið, sem veitir keppnisrétt í milliriðli HM, og um leið sæti í undankeppni næsta Evrópumóts.

Íslenska liðið lagði Finna að velli, 81:76, í Laugardalshöllinni á föstudagskvöldið, með frábærum endaspretti eftir að hafa lent ellefu stigum undir í síðari hálfleiknum.

Tryggvi Snær Hlinason kemur inn í íslenska liðið fyrir leikinn í dag. Hann komst ekki til landsins í tæka tíð til að spila gegn Finnum, þar sem tafir urðu á flugi vegna veðurs. 

Þá mun Logi Gunnarsson spila kveðjuleik sinn fyrir Íslands hönd í dag en þetta er hans 147. og síðasti landsleikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert