Á ekki að koma á óvart að Hlynur Bærings taki á okkur

Matthías Orri Sigurðarson.
Matthías Orri Sigurðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum með unnin leik fannst mér, einhverjum 6-7 stigum yfir fyrir fjórða leikhluta,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR, eftir 64:57-tap gegn Stjörnunni í öðrum leik liðanna í átta liða úr­slit­um í úr­slita­keppn­inni um Íslands­meist­ara­titil karla í körfu­bolta í kvöld. Liðin eru nú jöfn í einvíginu, hafa bæði unnið sitthvorn heimaleikinn en mætast næst í Seljaskóla á fimmtudaginn kemur.

„Svo gátum við ekki skorað körfu, þetta var ótrúlegt á tíma. Við komum okkur ekki í færi og létum ýta okkur út úr öllu. Hrikalega léleg frammistaða, sérstaklega hjá okkur lykil sóknarmönnunum. Við eigum að geta sótt okkur körfu þegar við þurfum á því að halda en við gerðum það ekki.“

ÍR-ingar skoruðu undir tíu stig í tveimur leikhlutum og nýttu aðeins helming vítaskota sinna en Matthías var hundsvekktur með sóknarleikinn.

„Svo þegar við fengum bestu skotin í leiknum, vítaskot, þá ákváðum við að klúðra þeim, þar á meðal ég. Við erum komnir í úrslitakeppni og eigum að klára vítin okkar, við vinnum ekki leik ef ég er 0:4 í vítum.“

„Þetta er bara barningur og við eigum að vera klárir í það, þetta er úrslitakeppnin. Það á ekkert að koma okkur á óvart að Hlynur Bærings sé að fara taka á okkur, við erum frekar barnalegir ef við sjáum það ekki fyrir. Það er ekki ásættanlegt að skora undir 10 stig í tveimur leikhlutum, þó þeir skori ekki mikið sjálfir. Við erum að eyðileggja fyrir sjálfum okkur eftir að hafa spilað frábæran varnarleik á útivelli.“

Að lokum segir Matthías að nú þurfi ÍR-ingar einfaldlega að taka sig saman í andlitinu og vera klárir á heimavelli í næsta leik.

„Þetta er enginn barnaleikur lengur, við eigum að koma hingað og berjast eins og fullorðnir karlmenn. Nú förum við bara upp í Seljaskóla, róum okkur niður og lögum þetta. Svo mætum við trylltir á fimmtudaginn, við ætlum að verja okkur heimavöll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert