Hittu ekkert og settu svo stór skot í lokin

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Hari

„Mér finnst fallegt að horfa á lið halda liðinu í öðru sæti í deildinni í 28 stigum yfir þrjá leikhluta,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 64:57-­heimasigur á ÍR í öðrum leik liðanna í átta liða úr­slit­um í úr­slita­keppn­inni um Íslands­meist­ara­titil karla í körfu­bolta í kvöld. Það er nú jafnt á milli liðanna í einvíginu, 1:1, en næst mætast þau í Seljaskóla á fimmtudaginn kemur.

ÍR-ingum tókst ekki að skora meira en tíu stig í tveimur leikhlutum og var Hrafn gífurlega ánægður með varnarleik sinna manna.

„Þeir stökkva á okkur í öðrum leikhluta, skora 29 stig, en svo 28 samanlagt í hinum hlutunum. Varnarleikurinn hjá okkur var frábær og auðvitað er hægt að halda því fram að sóknarleikurinn eigi að vera betri. Við vorum að fá opin færi og klikka á þeim en við höldum bara áfram að fá þessi færi og hlæjum að því hvað þetta hefur gengið illa hingað til. Stíflurnar bresta á endanum, við förum að hitta úr skotum og þá verðum við í góðum málum.“

Stjarnan var undir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann en þá stigi menn upp. Eysteinn Bjarni Ævarsson var til að mynda með ekkert stig á þeim tímapunkti en skoraði svo tvær þriggja stiga körfur sem fóru langleiðina með að tryggja Stjörnunni sigurinn.

„Leikmenn sem voru ekki búnir að vera hitta allan leikinn setja stór skot í fjórða leikhluta. Við héldum trúnni á verkefninu og héldum bara áfram, sama hvernig staðan er þá erum við lið til að rífa okkur upp.“

Hrafn fagnaði innilega með stuðningsmönnum Stjörnunnar við leikslok og féll það illa í kramið hjá Borche Ilievski, þjálfara ÍR, sem las Hrafni pistilinn eftir á. Hann bað kollega sinn afsökunar fyrir stundarbrjálæðið.

„Ég átti þann pistil bara fyllilega skilið. Þegar maður er í úrslitakeppni leggur maður líf og sál í þetta. Ég missti einbeitinguna, enda með athyglisbrest á háu stigi, gladdist of mikið og óð upp í stúkuna. Það á maður aldrei að gera. Ég átti að ganga til félaga og góðs vinar míns og taka í höndina á honum. Það klikkaði í þetta skiptið, ég er búinn að biðja hann afsökunar og geri það aftur núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert