Ekkert sem gekk ekki upp

Anthony Hester var mjög góður í kvöld.
Anthony Hester var mjög góður í kvöld. Ljósmynd/Hjalti

Antonio Hester, leikmaður Tindastóls, skoraði 28 stig og var stigahæstur á vellinum í 114:83-útisigri á Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla kvöld. Hann viðurkennir að hann bjóst ekki við svo stórum sigri fyrir leik. 

„Það er ekki hægt að búast við svona mun, en við mættum og gerðum það sem við gerum best; að vinna saman sem lið. Sem betur fer mættum við og fórum með sigur af hólmi. Þetta var frábær sigur og við verðum að halda áfram að leggja mikið á okkur."

Hann segir hreinlega allt saman hafa gengið upp í kvöld. 

„Allt saman. Það var ekkert sem gekk ekki upp. Okkur leið mjög vel á vellinum og þetta var glæsilegur sigur liðsheildarinnar."

Fyrsti leikurinn í einvíginu var mjög jafn, en í kvöld var aldrei spurning hvort liðið myndi sigra. 

„Þjálfarinn settist með okkur eftir fyrsta leikinn og talaði um smáatriði sem við þurftum að laga í vörn, sókn og sem liðsheild. Það sést að það virkaði í dag. Þjálfarinn sagði okkur nákvæmlega hvað við gátum bætt og við gerðum það."

„Við ætlum ekki að breyta neinu, við verðum bara að halda áfram að gera það sem við gerum best. Ef við verðum eins tilbúnir og í kvöld í bæði vörn og sókn er ég bjartsýnn. Við vitum að að þeir eru með eitt besta liðið í deildinni og þeir munu selja sig dýrt. Við gera það sama á móti."

Tindastóll getur klárað einvígið 3:0, með sigri á heimavelli á föstudaginn kemur. 

„Allir vilja klára seríur 3:0, en við reynum að sleppa því að hugsa um það. Við tökum einn dag í einu, förum heim og jöfnum okkur eftir þennan leik. Síðan gerum við okkur klára fyrir föstudaginn," sagði Hester að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert