Hreinlega veikir andlega

Jóhann Þór Ólafsson
Jóhann Þór Ólafsson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er saga vetrarins, þetta er mitt lið. Við erum andlausir og hreinlega veikir andlega," sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, eftir 114:83-tap gegn Tindastóli í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var þokkalega jafn, þangað til í 4. leikhluta, en þá valta Tindastólsmenn hreinlega yfir Grindavík.

„Við vorum að búa til opin skot í byrjun en erum ekki að hitta svo hrynur þetta hjá okkur. Við vorum inni í þessu í fyrri hálfleik. Þetta eru ekki nema níu stig í hálfleik en svo missum við hægt og bítandi trúna."

„Við eigum erfitt með að fylgja leikplani og þetta var saga tímabilsins í hnotskurn," sagði Jóhann. Tindastóll vann 3. leikhlutann 36:14, en fannst honum sínir menn gefast upp í lokin? „Já í rauninni. Ég ætla ekki að fara í einhver smáatriði en við erum veikir andlega og eigum erfitt með að fylgja plani."

Fyrsti leikurinn í einvíginu á Sauðárkróki var jafn og spennandi og fór í framlengingu.

„Það er svekkjandi hvað var stór munur á milli liðsins í dag og á föstudaginn. Við vorum hörkugóðir þá en hentum því frá okkur. Það svíður mest."

„Hvort sem það er hér eða annars staðar, að mínu mati er þetta ekki getumunurinn á liðunum. Þeir voru hörkugóðir í dag og hittu vel á meðan að þetta var ofan í og upp úr hjá okkur. Í vörninni erum við líka hræðilegir."

Ljóst er að Grindavík er úr leik í úrslitakeppninni, spili liðið ekki mikið betur í þriðja leiknum næstkomandi föstudag. 

„Við verðum að sýna hugrekki og karakter og mæta ferskir á föstudaginn á Krókinn. Maður tekur kvöldið í kvöld að melta þetta. Við gefumst alls ekki upp," sagði Jóhann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert